133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:48]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bændur geta unað glaðir við sitt, voru lokaorð hæstv. landbúnaðarráðherra í þessum ræðustóli rétt áðan. Er það nú svo? Vafalaust gagnvart einhverjum þáttum en ekki öllum. Því langar mig að minnast á nokkur atriði við hæstv. landbúnaðarráðherra, sem jafnframt er varaformaður Framsóknarflokksins sem oft hefur kennt sig dálítið við bændur og verið illa við að bændur kjósi eitthvað annað en þann flokk, sem betur fer virðast margir bændur vera að fara frá því. Þessi atriði snúa að rekstrarskilyrðum bænda, bæði hvað varðar bú þeirra og heimili, eins og raforkukostnaðinum sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir að breyta á þann hátt að formaður Framsóknarflokksins hefur lýst yfir í þessum ræðustól að 25% þegna landsins hafi fengið á sig hækkun á raforkuhitakostnaði vegna upptöku breytinga sem urðu á raforkulögunum í landinu.

Þetta hefur komið allra verst við bændur. Ég trúi því að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi fengið lýsingar á því frá bændum hver kostnaðurinn hafi verið. Ég er hér með versta dæmið sem ég hef séð. Það eru reikningar sem sýna 60% hækkun. Ég hef sagt að þetta séu kaldar kveðjur Framsóknarflokksins til bænda og fólks í dreifbýli. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvers vegna Framsóknarflokkurinn ætli ekkert að gera til að lagfæra þetta vegna þess að hann ætlar ekkert að gera það. Þögn er sama og samþykki. Formaður Framsóknarflokksins hefur verið spurður út í þetta hér en ekkert svar fæst.

Virðulegi forseti. Ég hef áður talað um það að við sem sátum í iðnaðarnefnd þegar verið var að vinna þetta mál vorum leynd gögnum viljandi eða óviljandi. Nú vil ég segja frá því að ég hef komist að því af samtölum við mann í þessum geira að gögnum var haldið viljandi frá iðnaðarnefnd, (Forseti hringir.) gögnum sem hefðu kveikt aðvörunarljós fyrir okkur (Forseti hringir.) hvað þetta varðar.