133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:55]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér líður eins og ég hafi fengið heilbrigðisvottorð. Nú liggur það hér fyrir að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur klofið sig frá samstarfsmanni sínum í þessu, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, og segir að þarna sé ekki um nein svik að ræða.

Það liggur auðvitað fyrir, hv. þingmaður, að markmiðin voru þau sem ég sagði. Bændum var gerð grein fyrir því, eins og ég hef margsagt, að útflutningsskyldan væri litin mjög miklu hornauga og hún færi örugglega út í WTO-samning og WTO-samningar geta komið fyrr eða síðar. Kannski koma þeir síðar, ég veit ekkert um það. Þess vegna var heiðarlegt að búa atvinnugreinina undir það í fyrsta lagi að fara að huga að því hvernig hún stæði að markaðssetningu sinni á útflutningi, vildi hún standa í því, með afurðastöðvum og skipuleggja það, og ekki síður að gera það sem ég hef hér rakið, að koma strax til móts við atvinnugreinina ef verðfall yrði á innanlandsmarkaði, ef verð til neytenda lækkaði í einhverju offramboði eða átökum á kjötmarkaði, sem er ekki til staðar í dag en getur hins vegar komið áður en varir. Ég ætla ekkert að þræta fyrir það. Því var niðurstaðan sú sem komið hefur fram í umræðunni og ég gat um að 300 millj. kr. fara beint til bænda strax á árinu 2008 til að mæta þeirri sveiflu og á hverju einasta ári kemur þessi upphæð til að mæta þessari sveiflu ef af henni verður.

Í þessu frumvarpi er því sólarlagsákvæði um að útflutningsskyldan fari út 1. júní 2009. Hún er inni áfram þegar við afgreiðum þetta mál en fer út með sólarlagsákvæði. Ég veit að bændur segja það hvar sem hv. þingmaður kemur, (Forseti hringir.) að við þann samning sem gerður var við þá hafi verið staðið á allan hátt. Þannig þekki ég íslenska bændur.