133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal nú ekki blanda mér í deilur um það bréf sem hv. þingmaður hefur lesið upp bæði í gær og í dag. En eins og ég skil það efni er ekki ágreiningur um að samkomulag hafi verið um að afnema útflutningsskylduna. Ágreiningurinn lýtur að því að bréfritarar telja ráðherrann hafa lofað því að flytja ekki tillöguna um að afnema hana núna heldur síðar. En samkomulag hafi verið um að afnema útflutningsskylduna. Þannig skil ég efnið og ég bið hv. þingmann um að leiðrétta mig ef ég hef misskilið þetta.

En ég vek athygli á því að hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni sem ég lagði fyrir hann um fjárhæðirnar í samningnum. Er hv. þingmaður að leggja til að fjárhæðirnar, þessar 300 millj. kr. á ári, sem settar eru inn í samninginn til að mæta tekjutapi bænda vegna aukinnar samkeppni á sölu á kjötmarkaði, verði teknar út úr samningnum ef fallist verður á tillögu hans um að viðhalda útflutningsskyldunni? Það fer saman. Það er óumdeilt að það fór saman í samningsferlinu að þessir peningar komu inn í samninginn til mótvægis við áhrifin af því að afnema útflutningsskylduna.

Ef hv. þingmaður vill ekki lækka fjárhæðirnar þá er hann einfaldlega að leggja til að neytendurnir borgi meira fyrir sína vöru sem nemur þessum fjárhæðum og skattgreiðendur borgi meira sem nemur þessum fjárhæðum vegna þess að samningurinn er áfram með þeim inni. Það er út af fyrir sig sjónarmið. En þá er það ljóst í hverju munurinn liggur af hálfu hv. þingmanns.

Að lokum vil ég segja að ég er ósammála honum í því að það eigi að leggja hömlur á atvinnufrelsi manna til að stunda sauðfjárrækt. Kjósi maður að stunda þá atvinnugrein án nokkurs stuðnings af hálfu ríkisins, þá á honum að vera frjálst að gera það og eiga aðgang að íslenskum (Forseti hringir.) mörkuðum.