133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[17:39]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar þetta mál var lagt fram fyrir nokkrum vikum bar svo við að ég var hér viðstaddur sem varamaður á þingi. Þá kvaddi ég mér hljóðs og gerði nokkrar athugasemdir við frumvarpið sem fjallar um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Athugasemdir mínar gengu út á það að frumvarpið væri bæði of þröngt og gengi of skammt. Átti ég þá við tvennt, annars vegar það að heimildin tekur ekki til þeirra stofnana sem starfandi eru við gildistöku laga þessara og það gerir líka ráð fyrir að nefndin fjalli um og kanni starfsemi stofnana þar sem börn voru vistuð á tilteknu tímabili.

Eftir 1. umr. málsins var því vísað til nefndar eins og lög gera ráð fyrir og nú liggur fyrir nefndarálit sem lagt hefur verið fram og tekið fyrir. Ég sé að í því nefndaráliti hafa allir nefndarmenn, sem voru til staðar þegar málið var afgreitt, skrifað undir með þeirri undantekningu að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur fyrirvara.

Ég vildi af þessu tilefni, þegar svo ber við að ég er aftur mættur til leiks og þetta mál kemur hér á dagskrá, nota tækifærið til að endurtaka athugasemdir mínar um frumvarpið og ítreka að ég tel mikla nauðsyn á því að sú athugun sem þar er talað um verði miklu ítarlegri en gert er ráð fyrir. Mér finnst það mikill annmarki á þessu annars ágæta frumvarpi sem ég eftir atvikum styð, svo langt sem það nær, og bendi á að komið hefur fram margvísleg gagnrýni og full ástæða er til að stofnanir sem starfa að þessum málum, sem ganga undir nafninu vist- og meðferðarheimili, séu teknar til frekari athugunar þar sem um er að ræða vistun á fullorðnu fólki. Þarf ég ekki að hafa mörg orð um þá ástæðu. Ég held líka að ástæðulaust sé að undanskilja stofnanir sem starfandi eru við gildistöku laga þessara, það á eitt yfir alla að ganga. Ég tel að það sé grundvallarnauðsyn á því að þessi málaflokkur sé tekinn til ítarlegrar endurskoðunar og athugunar vegna þess að brotalamir eru augljósar.

Ég vildi, frú forseti, koma þessum athugasemdum mínum enn og aftur að við þessa lokaumræðu. Ég lýsi eftir atvikum yfir stuðningi mínum við þetta nefndarálit og afgreiðslu þessa máls en hef þann fyrirvara á sem ég hef ítrekað.