133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[22:02]
Hlusta

Frsm. minni hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þetta mál, það er rétt að segja það í byrjun, er merkilegt. Vegna þess að í því er í fyrsta sinn hérlendis brugðist með lögum við þeirri loftslagsvá sem þegar ógnar aðstæðum manns og náttúru á jörðinni og markar af okkar hálfu upphaf baráttu gegn loftslagsbreytingum þeim sem hættulegar eru og auðvitað líka aðlögun að þeim tíma sem í vændum er.

Það verður líka að segja að frumvarpið er vel samið og greinilegt að hér hafa góðir fagmenn verið að verki, væntanlega starfsmenn umhverfisráðuneytisins. Þá verð ég í þriðja lagi að segja að þetta er ekki gott frumvarp vegna þess að í því er að vísu brugðist við loftslagsvá að orðinu til en í raun og veru er verið að skapa stjórnvöldum leið til þess að sleppa fram hjá skuldbindingum sem þau hafa tekist á hendur fyrir hönd íslensku þjóðarinnar með þjóðum veraldar í þessu efni.

Það er ástæðan til þess að minni hluti umhverfisnefndar gat ekki orðið samferða meiri hlutanum í afstöðu sinni til málsins. Meiri hlutinn gerði það að vanda að taka einfaldlega undir það sem að honum var rétt og það kemur ágætlega fram í því stutta og efnislitla nefndaráliti sem var hér lesið áðan í stuttri og efnislítilli ræðu formanns hv. umhverfisnefndar.

En nefndarálit okkar er öllu lengra og við það eru fest nokkrar umsagnanna, þær sem einkum snerta það mál sem við gerum athugasemdir við, þannig að menn fyrtist nú ekki aðrir sem umsagnir sendu alveg ágætar. Ég bendi m.a. á vandaðar umsagnir Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar um málið, auðvitað þann þátt þess sem sérstaklega snýr að þeim og ber ekki hæst í hinni almennu umræðu um málið þó það séu ákaflega merkileg fræði og merkileg framtíð sem gæti blasað við í þeim efnum.

Minnihlutaálit okkar er svona:

Markmið frumvarpsins er í 1. gr. sagt vera að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Skilyrði þessi á með frumvarpinu að skapa á þann hátt að stjórnvöld fá lagaheimild til að úthluta stóriðjufyrirtækjum losunarkvóta og eru laus allra mála gagnvart stóriðjunni þegar þeim kvóta sleppir.

Hér er fyrst og fremst um að ræða losunarheimildir samkvæmt undanþáguákvæðinu við Kyoto-bókunina, 14/CP.7, eins og hún heitir, en einnig verður úthlutað til stóriðju hluta af almennum losunarkvóta Íslendinga á fyrsta Kyoto-tímabilinu, 2008–2012. Treyst er á að hlutdeild annarra uppsprettna en stóriðju verði á þessum tíma minni en svo að gangi á stóriðjukvótann, sem alls er talinn 10,5 millj. tonna af koltvísýringi, CO2, og koltvísýringsígildum. Þar af teljast 8 millj. tonna heimilar samkvæmt undanþáguákvæðinu (1,6 millj. tonna á ári) en 2,5 millj. tonna koma af almenna kvótanum, sem samtals er rúmar 18,5 millj. tonna á tímabilinu eða rúmlega 3,7 millj. tonna á ári.

Þessum heimildum, 10,5 milljónum tonna, skal úthlutað árlega en þó ekki í jöfnum skömmtum á hverju ári heldur er gert ráð fyrir að úthlutunarnefndin geti úthlutað fleiri losunarheimildum á síðari hluta tímabilsins en hinum fyrri. Og reyndar öfugt ef í það færi en samkvæmt eðli máls er hér gert ráð fyrir því að þær verði færri á fyrri hluta tímabilsins en að lokum þess. Losun stóriðju samkvæmt undanþáguákvæðinu getur því verið umtalsvert meiri á síðasta Kyoto-árinu, árið 2012, en að meðaltali á tímabilinu.

Fyrirtækin sem um sækja fá heimildirnar ókeypis. Þegar fer að þynnast í heimildabirgðunum skal nefndin úthluta samkvæmt matskenndum reglum sem miðast við að fyrstur fái sá sem fyrstur kemur. Fyrirtæki sem ekki hefur náð frísæti í kapphlaupinu getur aflað sér meiri kvóta með því að kaupa losunarheimildir erlendis. Auk þess er hægt að afla sér aukaheimilda með bindingu í gróðri eða með samstarfi í þróunarríkjum og Austur-Evrópuríkjum einkum, samkvæmt svokölluðum sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar.

Minni hluti umhverfisnefndar fagnar því að loksins skuli komið fram frumvarp sem gerir íslenskum stjórnvöldum kleift að hafa hemil á losun frá stóriðju, segjum við hér í nefndarálitinu eftir að hafa stuttlega lýst meginatriðunum í frumvarpinu. Við teljum hins vegar að frumvarpinu sé verulega áfátt í mikilvægum atriðum og flytjum breytingartillögur sem ætlað er að bæta úr helstu ágöllunum.

Í fyrsta lagi. Við gagnrýnum að í frumvarpinu er í raun ekki kveðið á um neins konar árangur við samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Tengsl frumvarpsins við nýlega loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar eru engin. Þar er talað um samdrátt um 50–75% árið 2050, eftir 43 ár, miðað við losunina 1990 en í frumvarpinu er í raun gert ráð fyrir verulegri aukningu losunar á Íslandi til 2012 og jafnvel eftir þann tíma. Þetta stríðir gegn markmiðum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og stríðir gegn skuldbindingum Íslendinga með þeim samningi. Ríkisstjórnin er óspör á fögur fyrirheit fyrir hönd næstu kynslóða í loftslagsstefnuplagginu. En þegar kemur að stóriðjuáformum í þessu frumvarpi gleymast hinar háleitu hugsmíðir.

Í öðru lagi. Við teljum óheppilegt að blandað sé saman úthlutun samkvæmt undanþáguákvæðinu og úthlutun úr almenna kvótanum, og gagnrýnum að tekinn sé af handahófi hluti almenna kvótans og settur til stóriðjuúthlutunar. Vissulega er rökrétt að til slíkrar úthlutunar séu settar losunarheimildir í samræmi við losun frá verunum í Straumsvík og á Grundartanga fyrir 1990. Ekki er hins vegar eðlilegt að reikna með úthlutun til stóriðju úr almenna kvótanum umfram það, nema um sérstök tilvik sé að ræða. Fyrir þeim ætti þá að gera ráð sérstaklega, svo sem Sementsverksmiðjunni, sem rætt hefur verið um í þessu sambandi en lítið fjallað um í frumvarpi hæstv. ráðherra, og hugsanlegri rafskautaverksmiðju á Katanesi sem þegar hefur fengið starfsleyfi en efast er um að í gagn komist. Og má bæta við að flestir þeir sem ég hef heyrt í vona nú að það verði ekki.

Þessi staða er sérlega óheppileg vegna þess að gert er ráð fyrir að losunarheimildirnar séu ókeypis en að fyrirtækin sem ekki komast í fríriðilinn þurfi að kaupa sér heimildir. Gallarnir verða hins vegar þolanlegri ef samþykktar eru breytingartillögur okkar um gjaldtöku og takmörkun á aukaheimildir. Í nafni einfaldleikans höfum við því ekki borið fram beinar breytingartillögur við þetta.

Í þriðja lagi. Við höfnum reikningskúnstum með þær heimildir sem fylgja undanþáguákvæðinu. Vissulega er það rétt að heimildirnar á Kyoto-tímabilinu, 2008–2012, miðast við meðaltal áranna fimm. Með þeirri reglu var raunar reynt að koma í veg fyrir í samningunum að rustaríki fyndu sér þá löglegu leið fram hjá skuldbindingum sínum að losa mikið hluta af tímabilinu en lækka sig síðan niður í lokin, ef miðað hafði verið við síðasta árið.

Með því að treysta á uppsöfnunaraðferðina, með þessari reikningskúnst, fer ríkisstjórnin á svig við skuldbindingar Íslendinga. Ljóst er að sú stóriðja sem nú er ákveðin, þ.e. Alcan án stækkunar umfram 1990-losun, Járnblendið umfram 1990-losun án frekari stækkunar, Norðurál og Fjarðaál, mundi að meðtaldri stækkun í Straumsvík losa meira í lok Kyoto-tímabilsins en nemur ársmeðaltalinu 1,6 millj. tonna. Í athugasemdum við frumvarpið segir að heildarlosun sem fellur undir undanþáguákvæðið frá framangreindum verum fullbyggðum auk álvera í Helguvík og við Húsavík yrði 2,7 millj. tonna, 1,1 millj. tonna meiri en ársmeðaltal samkvæmt undanþáguákvæðinu.

Ég endurtek. Í athugasemdum við frumvarpið segir beinlínis að ein þeirra sviðsmynda eða „scenarioa“ sem reiknað hefur verið út og er mjög sennilegt, eitt af því sem er sennilegt að gerist, þó að menn kunni að hafa aðra löngun, er það að heildarlosun sem fellur undir undanþáguákvæðið frá verunum sem ég taldi áðan, auk álveranna í Helguvík og á Húsavík, yrði samtals 2,7 millj. tonna, 1,1 millj. tonna meiri en gert er ráð fyrir að meðaltali á þessum árum fimm samkvæmt hinu fræga undanþáguákvæði sem stundum er kallað íslenska ákvæðið en ég hef nú nefnt stundum íslensk/mónakóska ákvæðið vegna þess að það eru tvö ríki í heiminum sem hafa tilkynnt að þau vilji nýta sér það. Það eru stórveldin Ísland og Mónakó. Svona er þetta.

Þetta þýðir það, forseti, að menn væru auðvitað komnir langt yfir þetta meðaltal 1,6 millj. sem að vísu er heimilt en í ársbyrjun 2013 eru menn sem sé með þessar 2,7 millj. ef ekki í ársbyrjun 2013, þá á árinu 2014, 2015, 2016 eftir því hvað þessi ver eru ör í uppbyggingu og má í raun og veru einu gilda. Hér segir líka:

Að vísu er ekki líklegt að losunin gæti orðið svo mikil árið 2012 vegna byggingarhraðans en mundi ná því marki næstu árin þar á eftir. Þótt heildarlosun árin 2008–2012 næði enn ekki þeim 8 millj. tonna sem leyfð eru á tímabilinu er augljóst að íslensk stjórnvöld væru með þessu að misvirða skuldbindingar sínar þar sem varla væri unnt að koma þessari losun niður fyrir meðaltalsmörkin á næstu árum frá 2013 þegar almennt er búist við dagskipun um verulegan samdrátt í þeim samningi sem nú er verið að hefja viðræður um. Með kúnstum af þessu tagi kynnu Íslendingar að verða settir í skammarkrók samkvæmt Kyoto-bókuninni og gert að draga meira úr losun en ella. Verra væri þó jafnvel að þjóðin og stjórnvöld hennar yrðu talin meðal skussa og rusta í alþjóðlegum umhverfismálum. Það veikti virðingu þjóðar og ríkis, ímynd, viðskiptavild alls kyns og samningsstöðu.

Í þýsku lögfræðiáliti sem skrifað var fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands eru lokaorðin þessi, í þýðingu Markmáls sem samtökin létu útbúa, með leyfi forseta:

„Til að sinna skyldum sínum samkvæmt alþjóðalögum, en þó einkum og sér í lagi samkvæmt ákvæði 14/CP.7, er Íslandi heimilt að nýta að fullu undanþáguna um þær 8 milljónir tonna af CO2 sem veitt var og ber ekki skylda til að sækja um á ári hverju að fá til ráðstöfunar 1,6 milljónir tonna af CO2. Þrátt fyrir þetta“ — segja Þjóðverjarnir — „getur ríkisstjórnin ekki sótt um að auka umfang verkefnisins og útblástur sem fellur undir þetta ákvæði með það fyrir augum að skapa óbreytt ástand (status quo)“ — í frumtexta — „og heimila landi að undanskilja iðnaðinn frá reglugerð um útblástur. Slíkt myndi brjóta í bága við þá skyldu Íslands að draga úr útblæstri til lengri tíma litið. Ef Ísland reyndi að semja á ný um svipaðar undanþágur fyrir næsta samningstímabil myndi það ganga á svig við og vera andstætt skuldbindingum þess samkvæmt alþjóðalögum.“

Ég kýs að endurtaka þessa setningu vegna þess að hún er mikilvæg, með leyfi forseta:

„Ef Ísland reyndi að semja á ný um svipaðar undanþágur fyrir næsta samningstímabil myndi það ganga á svig við og vera andstætt skuldbindingum þess samkvæmt alþjóðalögum. Slíkt gæti einnig orðið efniviður í hugsanlega kröfu um ábyrgð ríkisins þar sem slíkt væri ekki í samræmi við að sýna kostgæfni við að hindra og lágmarka tjón af völdum loftslagsbreytinga.“

Það má spyrja sig hvað þetta álit þýsku lögfræðinganna þýðir. Þar kemur tvennt til greina. Ef Íslendingar fara óvarlega þá getur auðvitað vel verið að í gang fari refsiákvæði Kyoto-samningsins. Það segja þó vísir menn að það sé ólíklegt, í fyrsta lagi að Íslendingar fari svo óvarlega og í öðru lagi að menn mundu beita því. En það er auðvitað alveg ljóst ef þetta fer svona að menn fara ekki bara yfir heldur bara verulega yfir þau mörk sem sett eru að meðaltali jafnvel þó þeir færu ekki yfir heildartöluna þá mundu Íslendingar ekki njóta neinnar vildar í samningunum framvegis og eiga þó við það að stríða að eftir það sem fyrirhugað er núna í stóriðju, sem umhverfisráðherra hefur sagt sem frægt er að sé ekki vandinn heldur lausnin, þá er hætt við að hin fræga umhverfisásýnd Íslendinga brotni niður gagnvart tölum um meðallosun á íbúa sem yrði þá sennilega komin í það sem stundum er kallað topp tíu listinn og jafnvel komin í topp fimm listann.

Uppsöfnun losunarheimilda, segjum við hér í nefndarálitinu, stríðir gegn markmiðum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og skuldbindingum Íslands gagnvart þeim samningi.

Við leggjum því til að við úthlutun losunarheimilda samkvæmt undanþáguákvæðinu verði miðað við að losun sé ekki meiri en 1,6 milljón tonn á síðasta ári Kyoto-tímabilsins, 2102.

Hér er fyrsta efnislega breytingartillaga okkar. Hér hefur henni verið lýst. Hún felst í því að við úthlutunina skuli þess gætt að árið 2012 sé ekki meiri heildarlosun frá stóriðju á Íslandi samkvæmt undanþáguákvæðinu en nemur meðaltalinu á þessum fimm árum. Það er gert til þess að næsta ár, árið 2013, verði síður hætta á því að á Íslandi sé losað meira af koltvísýringi samkvæmt þessu ákvæði en nemur þessu meðaltali og er gert beinlínis til að bæta samningsstöðu Íslendinga og sjá til þess að núverandi ríkisstjórn brjóti ekki með ráðslagi sínu í raun þann samning sem hér er um að ræða og geri okkur torvelt að fara í næsta tímabil.

Í fjórða lagi. Losunarheimildir Íslendinga á Kyoto-tímabilinu eru takmörkuð verðmæti.

Ég kýs að nota það orð hér og við í nefndarálitinu í staðinn fyrir takmörkuð gæði, hvað þá auðlindir, vegna þess að þau orð eiga miklu síður við um það sem hér er um að ræða. En „takmörkuð verðmæti“ hljóta menn að fallast á að geti gilt um þessar heimildir.

Sjálfsagt er að skapa hagræna hvata sem víðast til að draga úr notkun losunarheimildanna. Hætt er við að með úthlutun gjaldfrjálsra losunarheimilda sé ýtt undir hefðarhald á þessum heimildum, að fyrirtækin sem úthlutað verður ókeypis kvóta telji sig eiga hann með nokkrum hætti og geri á þeim grunni kröfur í framhaldinu, eftir árslok 2012. Saga fiskveiðistjórnar á Íslandi undanfarna áratugi sýnir vel hætturnar sem í þessu felast.

Andrúmsloft fellur undir náttúrugæði í skilningi auðlindanefndarinnar sem skilaði skýrslu sinni árið 2000. Þar er vísað til þess að með tímanum kynni að vera æskilegt að fella andrúmsloft eins og aðrar nýtanlegar auðlindir sem ekki eru í einkaeign undir þjóðareign. Þetta kannast menn við úr umræðu síðustu daga. Sá tími virðist nú runninn upp þar sem réttur til að nýta auðlindina andrúmsloft með þeim hætti sem frumvarpið fjallar um er orðinn takmarkaður og eftirsóttur. Í því ljósi er allsendis óhæft að úthluta þeim rétti án reglna um jafnræði og endurgjald.

Við tökum í þessum efnum undir sjónarmið sem fram koma í umsögn Orkustofnunar, þar sem talið er, með leyfi forseta:

„... mjög mikilvægt að strax í upphafi sé mótuð heildarstefna um þá aðferðafræði sem notuð verði til framtíðar við úthlutun og hugsanlegt endurgjald fyrir þau takmörkuðu gæði sem til verða við takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda.“

Orkustofnun lýsir áhyggjum sínum af því að með þessu sé verið, með leyfi forseta:

„... að skapa fordæmi um varanlega ráðstöfun á losunarkvótum á grundvelli sögulegra viðmiða, án endurgjalds“.

Þetta kannast menn líka við. Hér hljómar saga fiskveiðistjórnarmála.

Minnt er á það kerfi framseljanlegra losunarkvóta sem nú er verið að koma upp innan Evrópusambandsins og að lokum væntanlega á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, og bent á að hinar takmörkuðu losunarheimildir hafi þegar fengið á sig verðgildi, með leyfi forseta:

„Löggjafarvaldið verður því að vera sér meðvitað um að með úthlutun á losunarheimildum“ — segir Orkustofnun — „nú kunni að vera lagður grunnur að fyrirkomulagi sem muni hafa afleiðingar langt fram yfir það tímabil sem frv. þetta fjallar um, þ.e. árin fram til 2013.“

Ég ætla að lesa þessa setningu aftur ef vera kynni að hæstv. umhverfisráðherra hefði ekki heyrt hana. Orkustofnun segir, með leyfi forseta:

„Löggjafarvaldið verður því að vera sér meðvitað um að með úthlutun á losunarheimildum nú kunni að vera lagður grunnur að fyrirkomulagi sem muni hafa afleiðingar langt fram yfir það tímabil sem frv. þetta fjallar um, þ.e. árin fram til 2013.“

Það sem hér er auðvitað verið að segja á ákaflega kurteislegan hátt, þann hátt sem hæfir virðulegri ríkisstofnun eins og Orkustofnun, er að ef menn samþykkja þetta frumvarp óbreytt þá leggja þeir sig í þá hættu að hafa þar með samþykkt gjafakvóta til tiltekinna fyrirtækja sem þau verði mjög treg að láta af hendi og kunni að lokum að líta á sem sína eign. Allt þekkjum við þetta einmitt úr hinni löngu og erfiðu sögu fiskveiðistjórnar sem er ekki lokið og átti hér á umliðnum dögum einn í senn dapurlegasta og fyndnasta, hlægilegasta, kaflann í sinni sögu.

Að nefndarálitinu á ný: Við leggjum til að hugsað verði til framtíðar í þessum efnum og strax komið á fót skipan sem miðast við að losunarheimildirnar séu takmörkuð verðmæti í þjóðareigu sem afhentar eru til tímabundinnar nýtingar gegn gjaldi. Þessi skipan er í góðu samræmi við mengunarbóta- eða greiðsluregluna sem væntanlega verður lögleidd á þessu þingi sem ein af meginreglum umhverfisréttar.

Nú er það að vísu í tvísýnu. En það er að minnsta kosti ekki vegna andstöðu okkar við þessar meginreglur í stjórnarandstöðunni sem þær kunna að þurfa að bíða hér á löggjafarþinginu.

Eðlilegt er að miða við að gjaldsupphæð sé hverju sinni sem næst markaðsverði. Gjaldsupphæð sem hér er lögð til, 100 kr. fyrir losunarheimildina á ári, miðast við 10% af markaðsverði á losunartonni innan ESB nú.

Hér þarf kannski nánari útskýringu. Eins og menn vita sem hafa aðeins fylgst með þessum málum þá hefur saga losunarheimilda sem vöru, eða sem að minnsta kosti sem verðmætis sem borgað er fyrir, sem keypt er og seld innan Evrópusambandsins, þ.e. hún hefur rokkað nokkuð til. Upphaflega var nokkuð hátt eða hærra verð á þessum heimildum. Um nokkra hríð var verðið um tíu evrur, rétt fyrir neðan tíu evrur. Þegar ég gúgglaði verðið inn um daginn á tölvuna þá fékk ég átta dollara. Það var svona fyrir þremur vikum eða svo, á einum stað. En nú mun verðið vera allmiklu lægra, sem nemur einni evru. Menn búast nú ekki við að það standi lengi. En við verðum að taka mark á því sem hér segir enda erum við ekki að setja gjaldsupphæð til þess einkum að ríkið hagnist, ekki að sinni, heldur til þess að skapa grundvöll að því kerfi sem Orkustofnun meðal annars óskar eftir. Það er síðan að sjálfsögðu ætlunin að löggjafinn fylgist með þessu verði í samvinnu við ráðuneytið og hækki það og lækki eftir því sem þurfa þykir miðað við heimsmarkað eða einkum markaðinn innan Evrópusambandsins og ef til vill á öllu Evrópska efnahagssvæðinu þegar fram líða stundir.

Við höldum áfram að lýsa örlítið hvers vegna við miðum við 10%: Árið 2008 fá samsvarandi fyrirtæki þar aðeins 90% af losunarheimildum gjaldfrítt og þurfa því að draga saman um 10% eða kaupa losunarheimildir sem því nemur. Þess er vænst að verðið hækki ytra á næstu árum og er eðlilegt að fylgja þeirri þróun eftir með nýrri lagasetningu um gjaldið þegar þurfa þykir, jafnvel fyrir hverja úthlutun, eins og tíðkast um önnur gjöld sem Alþingi ákveður. Vel kann svo að vera að í framtíðinni þyki uppboðsleið heppilegri við úthlutun losunarheimilda, einkum ef hún verður víðtækari en nú er fyrirhugað. Því álver í vinnslu hefur í sjálfu sér ekki mikinn möguleika á að draga saman notkun sína eða losun sína innan árs og möguleikinn fyrir álver felst auðvitað hvað koltvísýringinn varðar einkum í því að þróa nýja tækni sem kæmi í stað kolarafskautanna sem nú eru notuð. Það er auðvitað það sem álverin hafa hikað við að gera. Það er kostnaðarsamt að koma þeirri tækni áleiðis. Því er haldið fram meðal þeirra sem með þessu fylgjast að þau séu treg til þess meðal annars vegna þess að þau ætli sér áður að fullnýta alla þá ódýru orku sem í heiminum finnst sem er auðvitað ástæðan fyrir því að álverin eða álfyrirtækin eru nú að flýja Evrópu og þá hluta Bandaríkjanna þar sem raforkan er dýr og setjast að á, mér liggur við að segja, þróunarsvæðum hvað þetta varðar, svo sem á Íslandi þar sem stjórnvöld auglýstu fyrir aðeins fáum árum að hér væru „lowest energy prices“, segi ég á alþjóðaviðskiptatungumálinu, lægsta orkuverð í heimi, nánast útsöluverð eða eins konar brunaútsöluverð.

Í frumvarpinu er miðað, segir í nefndarálitinu, við árlega úthlutun losunarheimilda og er ekki líklegt að heimildir verði framseldar innan ársins nema þá í sérstökum tilvikum. Ekkert mælir í sjálfu sér gegn slíkri sölu, vegna þess að þá er ekki verið að selja eignir heldur í raun bara verið að selja afgang af heimildum innan árs eins og við þekkjum úr fiskveiðiumræðunum, en búa þarf svo um hnúta að hægt sé að skila heimildum aftur á kaupverði, að leggja heimildirnar inn.

Ég gleymdi að geta þess að þessi kafli var auðvitað um aðra breytingartillögu okkar, þá að tekið verði gjald fyrir heimildir þær sem úthlutað verður, 10,5 milljónir tonna samkvæmt frumvarpinu, sem er tala sem við út af fyrir sig breytum ekki þó við efumst um hana eins og áður segir. Þetta er ein af þremur breytingartillögum sem við hér flytjum, auk orðalags sem skýrt verður síðar.

Í fimmta lagi: Við teljum afar óheppilegt að leyfa fyrirtækjum sem ekki telja sig fá nægar losunarheimildir við úthlutun að kaupa ótakmarkaðan aukakvóta erlendis. Eins og mál standa nú yrði úthlutunarkerfi losunarheimilda eina stjórntækið sem almannavaldið hefði til að stýra þróun og frekari uppbyggingu stóriðju á landinu, en með leyfi því sem í frumvarpinu felst til að kaupa losunarheimildir óhindrað að utan væru öll bönd brostin. Ekki má gleyma að þetta er einnig siðferðilegt álitamál og varðar meðal annars ímynd og orðspor þjóðarinnar. Áður en lagt er á þá braut að heimila kaup á losunarheimildum erlendis þarf að fara fram grundvallarumræða um hvort Ísland eigi að verða miðstöð stóriðju sem rekin er á erlendum losunarheimildum. Losun á hvert mannsbarn er þegar orðin veruleg á Íslandi og ef heldur fram sem horfir gætu Íslendingar við lok Kyoto-tímans lent í hópi þeirra þjóða sem mest menga að höfðatölu og værum þar með orðin helstir ábyrgðarmenn loftslagsvárinnar sem losunin veldur.

Þá er ljóst að óheft kaup að utan ykju þrýsting á enn frekari uppbyggingu stóriðju, sem nú þegar hefur krafist mikilla umhverfisfórna í íslenskri náttúru vegna orkuöflunar, auk þeirra beinu skaðlegu áhrifa sem stóriðja hefur á næsta umhverfi sitt. Við tökum undir með Náttúrufræðistofnun sem segir í umsögn sinni að það sé „siðferðilega rangt að heimila fyrirtækjum sem hér starfa kaup á losunarheimildum erlendis fyrir atvinnustarfsemi sem getur spillt íslenskri náttúru“.

Við leggjum því til að kaup losunarheimilda að utan séu háð samþykki Alþingis hverju sinni.

Þetta er þriðja tillaga okkar. Við leggjum ekki til að þau verði bönnuð. Við viljum sýna skilning og skapa svigrúm til þeirra aðstæðna sem upp geta komið hér á næstu árum í því kapphlaupi sem ríkisstjórnin hefur skapað með stóriðjustefnu sinni milli álfyrirtækjanna. Við erum ekki í sjálfu sér að dæma það fyrir fram hvernig það verður en við erum að segja að það eigi að vera háð samþykki Alþingis hverju sinni með þeim hætti að óski fyrirtæki eftir kaupum á erlendum losunarheimildum eða komi hér með slíkar losunarheimildir í vasanum þá skuli umhverfisráðherra leggja það mál fyrir þingið til samþykktar eða synjunar hverju sinni.

Um bindingu í gróðri (og hugsanlega í bergi í framtíðinni) gegnir öðru máli, enn fremur um erlent samstarf. Á skrifstofu loftslagssamningsins í Bonn er nú unnið að því hörðum höndum að semja reglur um bindingu og lítur út fyrir að þær verði viðamiklar og strangar. Ólíklegt er að hér verði um verulega umfangsmikil verkefni að ræða á þessu sviði — og þá er átt við gróðurinn því að hitt er auðvitað það langt fram í tímann að erfitt er að ræða það í alvöru á þessu stigi — en ákvæðið um gróðurbindingu gæti þó reynst landgræðslu- og skógræktarverkefnum talsverð lyftistöng. Þess verður að gæta í því sambandi að ekki sé ráðist í gróðurbindingu þvert á náttúruverndarsjónarmið, og sjálfsagt er einnig að leggja slík sjónarmið til grundvallar erlendu samstarfi. Við leggjum því fram breytingartillögu þá sem bent er á í umsögn Náttúrufræðistofnunar um að gæta slíkra sjónarmiða við hagnýtingu sveigjanleikaákvæðanna.

Hér höfum við farið yfir þau fimm atriði sem við teljum athugunarverð og aðfinnsluverð í þessu frumvarpi og þær þrjár breytingartillögur, þrjár og hálfa, fjórar raunar, sem við leggjum fram. Lokaorð okkar í nefndarálitinu eru þessi:

Nái þetta frumvarp fram að ganga óbreytt kann það að leiða til þess að samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í viðræðum um framhald Kyoto-bókunarinnar taki öðru fremur mið af hagsmunum stóriðju en ekki þeim brýnu hagsmunum íslensku þjóðarinnar að vinna með öðrum innan alþjóðasamfélagsins að því markmiði að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna með því gegn hættulegum loftslagsbreytingum.

Þá ber að hafa í huga að Íslendingar eiga þess kost að verða í fararbroddi við að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis með nýtingu endurnýjanlegrar og umhverfisvænnar orku. Til að nýir orkugjafar eða orkuberar leysi jarðefnaeldsneyti af hólmi í samgöngum og fiskveiðum þarf mikla innlenda orkuframleiðslu. Gáleysisleg ákvæði frumvarpsins um uppsöfnun og innflutning losunarheimilda ýta undir enn frekari stóriðju sem gæti tekið upp orkuöflunarleiðir sem ella væru nýttar til þess arna.

Að samþykktum þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar til getur frumvarpið markað þáttaskil í starfi Íslendinga gegn loftslagsvá í heiminum. Það getur einnig skapað stjórnvöldum skilyrði til að virða með sóma skuldbindingar Íslendinga samkvæmt Kyoto-bókuninni og undanþáguákvæðinu frá Marrakesh. Með breytingartillögunum væri einnig dregið úr þeim vanda sem skipan mála að frumvarpinu óbreyttu skapar Íslendingum við lok Kyoto-tímabilsins. Frumvarpið svo breytt legði grundvöll að skynsamlegum og framsýnum samningsmarkmiðum Íslendinga í komandi viðræðum um næsta tímabil eftir árslok 2012.

Hér stendur í nefndarálitinu ártalið 2102 en ég óska eftir að það verði rækilega leiðrétt hjá þeim sem það geta, 2012, við enda Kyoto-tímans. Hins vegar kann að vera, forseti, að Kyoto-bókunin hafi áhrif til ársins 2102 og ekki ósennilegt að þá séum við enn að glíma við þennan vanda, vonandi þó leifar hans og komin m.a. í hagkerfi og samfélag sem tekur mið af þeirri hættu sem nú steðjar að okkur. Allt annað samfélag að ég vona, þó að það verði vonandi líka byggt á grundvallargildum í íslensku samfélagi og vestrænum samfélögum, allt annað hagkerfi þó að ég telji að það verði líka byggt á grunngildum heiðarlegrar samkeppni og samfélagslegrar ábyrgðar sem er ekki lengur pólitískur kostur heldur samfélagsleg þörf.

Ég ætla að lokum, forseti, að lesa úr nokkrum umsögnum sem þessu nefndaráliti fylgja. Fylgiskjöl með þessu nefndaráliti eru umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Landvernd og Náttúruverndarsamtökum Íslands. Ég gat þess áðan að fleiri merkar umsagnir hefðu borist okkur um þetta frumvarp en þessar fjalla aðallega um það efni sem ég er hér að lesa upp í nefndaráliti okkar í minni hlutanum.

Í umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem áður var vitnað til, segir þetta m.a., með leyfi forseta:

„Náttúrufræðistofnun Íslands vill einnig nota þetta tækifæri til að lýsa ánægju með nýja loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem umhverfisráðherra kynnti hinn 5. febrúar sl. Eitt af meginmarkmiðum loftslagsstefnunnar er að „nettólosun gróðurhúsaloftegunda minnki um 50–75% til 2050 miðað við nettólosun árið 1990“ Þessa metnaðarfulla markmiðs sér þó því miður ekki stað í umræddu lagafrumvarpi sem gerir ráð fyrir því að Ísland fullnýti Kyoto-heimild til að auka losun gróðurhúsalofttegunda til 2012 um 10% miðað við 1990 og fullnýti íslenska ákvæðið svokallaða, sem nemur um 1.600 tonnum af koltvísýringi.“ — Hér er átt við 1,6 millj. tonna af koltvísýringi. — „Fyrirhugaður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2050 hefst því á mikilli aukningu í losun þessara sömu lofttegunda sem dregur vissulega úr trúverðugleika loftslagsstefnunnar og eykur þrýstinginn á atvinnulíf og samfélag eftir 2013.

Náttúrufræðistofnun leggst gegn opinni heimild atvinnurekstrar, þar með talið stóriðju, til að afla sér losunarheimilda með öðrum hætti „svo sem með fjármögnun verkefna á sviði bindingar kolefnis í gróðri og jarðvegi … eða með kaupum á losunarheimildum erlendis frá“.“

Síðan bendir stofnunin m.a. á að innlend uppgræðslu- og skógræktarverkefni geti, þó að þau séu jákvæð, einnig verið andstæð náttúruverndarsjónarmiðum og leggur að lokum fram þá tillögu sem við höfum gert að okkar, að atvinnurekstri sé heimilt að afla sér þessara losunarheimilda að teknu tilliti til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.

Umsögnin frá Orkustofnun er merkileg. Ég hef oft staðið í þessum stól og kannski ekki vikið nógu góðu að Orkustofnun. Ég held þó að ég hafi alltaf tekið fram að ég ber mikla virðingu fyrir þeirri stofnun og því mikla starfi og þeim faglegu vinnubrögðum sem þar eru alla jafna sýnd. Ég hef hins vegar gagnrýnt að þeirri stofnun séu falin verkefni sem ekki eiga þar heima heldur ættu betur heima og væru heppilegar niðurkomin hjá undirstofnunum umhverfisráðuneytisins og í því hefur gagnrýni mín falist en ekki á Orkustofnun sjálfa.

Hér segir Orkustofnun m.a. að „í lögum um losun gróðurhúsalofttegunda ætti að marka heildarstefnu um alla þá starfsemi sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis en ekki taka aðeins tvo þætti fyrir. Í því sambandi bendir stofnunin á að u.þ.b. þriðjungur losunar kemur frá samgöngum og annar þriðjungur frá skipaflota landsmanna. Því telur stofnunin mjög mikilvægt að tekið verði á losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis í heild í stað þess að fjalla um afmarkaða hluta.“

Þetta er, forseti, í raun og veru svipuð gagnrýni og við höfum í frammi og fleiri á þessi lög. Að í þeim sé eingöngu verið að bjarga stjórnvöldum á Íslandi frá klandri sem þau lenda í ef þau búa sér ekki til verkfæri til þess að úthluta heimildum samkvæmt undanþáguákvæðinu. Í raun og veru er ekki í þessu frumvarpi verið að takast á við loftslagsvána eða reyna raunverulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Orkustofnun orðar þetta kurteislega. Við tökum undir þessa gagnrýni en, eins og ég sagði áðan, í nafni einfaldleikans sættum við okkur hins vegar við þann ramma sem þetta ágætlega samda frumvarp setur í kringum stóriðjuna.

Enn merkari kafli og kannski kjarninn í þessari umsögn er svona:

„Orkustofnun telur einnig varhugavert að fjalla um og lögfesta losunarheimildir og kvótasetningu með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu. Stofnunin telur mjög mikilvægt að strax í upphafi sé mörkuð heildarstefna um þá aðferðafræði sem notuð verði til framtíðar við úthlutun og hugsanlegt endurgjald fyrir þau takmörkuðu gæði sem verða til við takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda. Stofnunin hefur af því áhyggjur að með 11. gr. frumvarpsins, ef að lögum verður, sé verið að skapa fordæmi um varanlega ráðstöfun á losunarkvótum á grundvelli sögulegra viðmiða, án endurgjalds. Í því sambandi verður að hafa í huga að stefnt er að almennu kerfi framseljanlegra losunarkvóta innan Evrópusambandsins og þá væntanlega jafnframt innan EES. Þau takmörkuðu gæði sem felast í losunarheimildum hafa þegar fengið á sig verðgildi, og líklegt er að verðmæti slíkra kvóta muni fara vaxandi. Löggjafarvaldið verður því að vera meðvitað um að með úthlutun á losunarheimildum nú kunni að vera lagður grunnur að fyrirkomulagi sem muni hafa afleiðingar langt fram yfir það tímabil sem frumvarp þetta fjallar um, þ.e. árin fram til 2013.“

Ég vek enn athygli á því að hér eru ekki einhverjir hálfvitar í lopapeysum með fjallagrös að tala, einhverjir terroristar sem vaða hér uppi og eyðileggja vinnuvélar með maurasýru eða einhverjir stórhættulegir þjóðníðingar sem ekkert kunna fyrir sér og sitja á kaffihúsum í Reykjavík seint og snemma, heldur er það Orkustofnun sjálf og forustumenn hennar, þau Elín Smáradóttir og Þorkell Helgason, sem marka þessa stefnu og gera þessar athugasemdir við frumvarpið.

Ég vil líka til glöggvunar lesa þingheimi einn kaflann í fylgiskjali með umsögninni, þ.e. fyrirlesturinn „Orkumál á krossgötum – Hvert stefnir? – Hvað viljum við?“ sem var ávarp sem Þorkell Helgason orkumálastjóri flutti á hádegisverðarfundi í kjölfar ársfundar Samorku 9. febrúar 2007, en þetta hafa forustumenn Orkustofnunar lagt með umsögninni. Ég ætla að lesa hér 11. kafla ávarpsins til þess að skýra það sem Orkustofnun byggir á með umsögn sinni. Hann heitir Losunarkvótar og er svona, með leyfi forseta:

„Öll gæði sem eru takmörkuð eða þarf að skammta með einhverjum hætti fá á sig verðmæti. Ég sagði fyrr að farsælasta leiðin til að kljást við loftslagsmálin væri að það kæmust á víðtækir losunarkvótar sem verða virtir til fjár. Evrópusambandið er þegar búið að taka upp kvótakerfi að hluta og boðað hefur verið frumvarp hérlendis þar sem fyrstu skrefin að slíku kerfi eru stigin.“ — Þetta er reyndar sagt áður en frumvarpið verður til og óljóst hvort þau hafi verið stigin, a.m.k. er niðurstaða Orkustofnunar sú að það geti farið í alveg öfuga átt. — „Kannski þarf allt að hafa sína þróun og það kann að vera eðlilegt að fara hægt í setningu losunarkvóta. En í samræmi við það sem ég hef þegar sagt um ráðstöfun annarra takmarkaðra gæða vil ég leggja áherslu á að þegar í byrjun verði ferlið hugsað til enda. Verði kvótakerfi á losun víðtækt í heiminum og þrengt að losuninni svo einhverju nemur fá þessir kvótar hátt verðgildi; kannski 50–100 evrur á tonnið, en ekki aðeins þær 20 evrur eða svo sem verðið er í nú.“ — Og hefur lækkað mjög síðan. — „En hvað merkir það þá fyrir okkar stöðu á orkumarkaðnum? Auðvitað að hún batnar. Verðmæti orkulinda okkar getur því stóraukist við það að mannkynið taki á loftslagsvandanum. Það kann því að fara fyrir okkur í væntanlegum „hernaði í þágu loftslagsins“ — hér er Þorkell væntanlega að vitna í Bill Clinton, að ég held, — „eins og í seinni heimsstyrjöldinni að við græðum á öllu saman!“ — Segir orkumálastjóri, með bros á vör.

„En hvar kemur gróðinn fram? Í fyrirlestri sérfræðings Hydro fyrir nokkrum missirum kom fram að losunarkvótaverð upp á 10 evrur á tonnið gæti leitt til kostnaðarhækkunar á áltonni upp á 100 evrur, sem auðvitað þarf ekki að þýða sömu hækkun á álverði, en gefur þó vísbendingu um líklega þróun. Við þetta batnar auðvitað staða álframleiðslu þar sem rafmagnið er unnið án koltvísýringslosunar. Þá leyfi ég mér að spyrja: Ef almennt losunarkvótakerfi kemst á hver á þá að njóta ábatans af því að markaðsstaða raforkugeirans og áliðnaðarins hérlendis kann að batna umtalsvert? Mér finnst það ekki nóg að segja: „Ja, fyrst skulum við nú sjá ágóðann verða til, áður en við förum að ráðstafa honum“, eins og sagt var fyrir aldarfjórðungi um hugsanlegan fiskveiðiarð. Er ekki betra að ræða um leikreglurnar áður en mönnum fer að hitna í hamsi!“ Spyr orkumálastjóri í þessu fróðlega erindi.

Ég vil í þriðja lagi vekja athygli á umsögn Landverndar en henni fylgdu til umhverfisnefndar glæruútprent sem voru nokkuð merk. Þar er innlegg í þá umræðu sem hér hefur nokkuð viðgengist undanfarið, þ.e. hvort Íslandi beri siðferðisleg skylda til þess að verða eins konar reykháfur veraldar. Sú umræða hefur meira að segja skilað sér til hæstv. umhverfisráðherra í þeim frægu orðum hennar að álver á Íslandi séu ekki hluti af vandanum, heldur hluti af lausninni. Lausnin er þá sú að Ísland taki að sér vegna manngæsku sinnar og ábyrgðar gagnvart heimsbyggðinni að setja hér upp stóran reykháf og að hann sé ekki endilega kyntur með kolum heldur með þessari endurnýjanlegu orku.

Landvernd vekur athygli á því í glæru nr. 7 að álfyrirtækin sækja auðvitað hingað vegna orkuverðsins sem sé ákaflega lágt hér á landi. Hér er glæra af vef Alcoa m.a. þar sem Alain Belda, forstjóri þess fyrirtækis, talar um að orkuverð á Íslandi sé helmingurinn af 30 dollurum á megavattstund. Þetta var víst tekið fljótt af vefnum og má ekki tala um mikið hér á landi því eins og við vitum er það eitthvert allra helgasta leyndarmál á Íslandi hvert orkuverðið er sem við notum til samninga við álverin, þó það viti auðvitað allir í áliðnaðinum og er eitthvert heimskulegasta leyndarmál og bjánalegasta viðskiptatrúnaðarmál sem ég hef nokkurn tíma komist í kynni við.

Það sem Landvernd gerir í glærum sínum er líka það að þeir fara í umræðuna og taka mark á þeim forsendum sem hún gefur sér, þ.e. að það beri að hlusta á þau rök, og ég get tekið undir það, sem menn hafa borið fram um þetta. Ég verð að vísu að segja strax að ég tel að á móti þeim rökum verði að vega umhverfisspjöll á Íslandi. Ég hef ekki orðið var við það þrátt fyrir greinar nokkurra Íslendinga um þetta, orkumálastjóra fyrrverandi og annarra orkuáhugamanna. Ég hef ekki séð heimsbyggðina standa hér í stúkusætum í kringum okkur og hvetja okkur til þess að taka að okkur reykháfshlutverkið, heldur þvert á móti. Það sem ég verð var við er það að útlendir menn segja við okkur að það sé óskynsamlegt, það sé óábyrgt af okkur sem erum gæslumenn þessarar merkilegu náttúru á þessu einstæða landi að fórna henni í þessu skyni og biðja okkur alveg öfugt um að standa okkur í að gæta náttúrunnar og reyna að afla okkur fjár og hafa grundvöll atvinnulífsins í samræmi við það en ekki þvert á það. En rökin eru fyrir hendi og þá verður líka, segir Landvernd, að skoða allt ferlið.

Hún minnir á að til þess að framleiða 1 tonn af áli þarf 2 tonn af súráli. Minnir á það að súrálsnámurnar, nú ætla ég ekki að fara að lýsa þeim eins og gert var um daginn úr þessum stóli, en súrálsnámurnar eru niðurkomnar í heimshlutum nokkuð fjarri okkur, ein er held ég í Jamaíka, önnur í Gínea-Bissá og í enn öðrum heimshlutum. Menn verða því auðvitað að reikna ekki bara með kostnaði, heldur fyrst og fremst losun koltvísýrings frá jarðefnaeldsneyti sem til fellur við flutninginn. Þegar menn verða búnir að leggja þetta allt saman fer dæmið að líta aðeins öðruvísi út en gert er í hinum, mér liggur við að segja, kristilegu greinum orkuáhugamanna sem um þetta fjalla.

Þetta var útúrdúr sem kom til af því að þeir lögðu fram þessar merkilegu glærur og sögðu með þeim m.a. þetta, að álframleiðsla á Íslandi væri í hnattrænu samhengi óhagstæðara en álframleiðsla í þeim heimshlutum þar sem bæði er að finna vatnsafl og báxítnámur. Þetta er fróðlegt innlegg í umræðu sem þyrfti auðvitað að taka á þinginu og í samfélaginu öllu á þessum miklu umhverfistímum okkar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, þannig að ég haldi áfram í útúrdúrum, hefur með sínum mikla reikniheila komist að þeirri niðurstöðu að það sem við þurfum að gera næst sé að verja okkur fyrir umhverfisverndarmönnum, flokkum umhverfisverndarmanna sem muni í framtíðinni krefjast þess að við virkjum hér hverja sprænu til þess að verða þessi reykháfur heimsins. Það er skemmtileg framtíðarsýn hjá Pétri H. Blöndal og kannski ætti hann að fá einhvern til að skrifa úr því kvikmyndahandrit því hún er eiginlega svo góð að maður sér fyrir sér smekklega litla hryllingsmynd um það hlutskipti Íslendinga að verjast umhverfisverndarsinnum sem hér koma og vilja reisa reykháfa í landinu. Greenpeace-menn í miklum flokkum og væntanlega vinur okkar, Paul Watson, sem hér kæmi með sitt skip að neyða upp á okkur álverksmiðjum og öðrum spúandi eiturverksmiðjum af öðru og verra tagi.

Landvernd er hins vegar ekki bara að fræða okkur um þessa hluti heldur eru þeir auðvitað líka að tala um frumvarpið í sjálfri umsögninni. Þeir segja að hvað varði 9. gr. um áætlun um úthlutun losunarheimilda þá sé athyglisvert að á tímabilinu 2008–2012 verði samkvæmt frumvarpinu til úthlutunar 10,5 milljón tonn af koltvísýringi eða sem nemur, og þá deila þeir með fimm í þá tölu, 2,1 milljón tonna á ári. Á bak við þá tölu eru m.a. 8 milljón tonn af koltvísýringi sem eru til úthlutunar samkvæmt svokölluðu íslensku ákvæði Kyoto-bókunarinnar, eða sem nemur 1,6 milljónum tonna á ári. Þetta fór ég í gegnum áðan.

Síðan segja þeir þetta:

„Ljóst er að losun á fyrstu árum tímabilsins verður úthlutun talsvert undir 2,1 milljón tonna, sem er meðal úthlutunarheimild á ári yfir tímabilið. Til þess að fullnýta þær losunarheimildir, sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta, þyrfti því markvisst að auka losun gróðurhúsalofttegunda umtalsvert eftir því sem líður á tímabilið. Ekki fæst betur séð en að þessi mörk mundu t.d. rúma stækkun álvers í Straumsvík, álver í Helguvík og Húsavík og jafnvel einnig í Þorlákshöfn, svo fremi sem einhverjar þessara eininga eru gangsettar tiltölulega seint á tímabilinu.“

Landvernd gerir hér ekki annað en að framlengja varfærnisleg orð athugasemdanna með frumvarpinu sem er, eins og ég sagði áður, vel unnið og vel skrifað miðað við það flókna mál sem frumvarpið fjallar um og athugasemdirnar eru að reyna að skýra.

Landvernd heldur áfram og leggur þetta út af þessum staðreyndum:

„Svo virðist sem ekki sé vilji til þess að nýta það tækifæri sem þessi lagasetning felur í sér til þess að stemma stigu við fyrirsjáanlega hraðri uppbyggingu stóriðjunnar með tilheyrandi virkjunum, háspennulínum, landraski, spjöllum og losun gróðurhúsalofttegunda. Fullt tilefni er til þess að staldra við í þeim efnum …

Nú er ráð að læra af reynslunni áður en lengra er haldið. Víða skortir á grunnrannsóknir og grundvallarupplýsingar til þess að hægt sé að taka góðar ákvarðanir um frekari uppbyggingu stóriðjunnar. Vonir standa til að með 2. áfanga rammaáætlunar verði breyttar og betri forsendur til ákvarðanatöku og því hlýtur að vera skynsamlegt að staldra við fáein ár, enda gríðarlegir hagsmunir í húfi, til langs tíma litið.“

Þessi orð er mér unun að bera í þingið þar sem menn hafa verið með glósur bæði um minn flokk og aðra flokka í stjórnarandstöðu vegna þess að þeir hafa sett fram áætlanir um það að hér eigi að hinkra í stóriðjumálum. Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar farinn að taka undir það utan þingsalarins og sett fram tillögur sem við í Samfylkingunni höfum kallað Fagra Ísland eða hluti af tillögum sem við í Samfylkingunni höfum kallað Fagra Ísland um að þessari vinnu við rammaáætlun um vatnsafl og jarðvarma verði með nokkrum hætti snúið í raunverulega rammaáætlun um náttúruvernd áður en frekari ákvarðanir séu teknar í stóriðjuefnum. Það er auðvitað engin furða að Landvernd sé á svipuðum slóðum því auðvitað sækjum við til þeirra manna sem hér hafa best unnið í umhverfismálum undanfarin ár og áratugi.

Ég vil lesa lokaorð Landverndar. Öll umsögnin er prýðilegur texti og athyglisverð, en þeir segja þetta að lokum:

„Það er einlæg von Landverndar að þær háu úthlutunarheimildir sem lagðar eru til í frumvarpinu, þ.e. 10,5 milljón tonn á tímabilinu 2008–2012, verði lækkaðar umtalsvert. Verði mörkin ekki lækkuð í meðferð þingsins þá hljóta landsmenn allir að vona að stjórnvöld nýti ekki þessar umfangsmiklu heimildir til hlítar. Til þess þyrfti að koma óhemju mikil uppbygging stóriðju með tilheyrandi orkuverum og háspennulínum. Uppbygging sem óhjákvæmilega mundi setja mark sitt á dýrmæta náttúru landsins vítt og breitt ófæddum kynslóðum til handa.“

Hér lýkur umsögn Landverndar.

Forseti. Að lokum vil ég minna á og benda á rækilega umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands. Kannski rækilegasta af þeim umsögnum sem fjalla um málið almennt. Enn einu sinni tek ég fram að þó ég lesi ekki úr umsögnum Skógræktarinnar og sérstaklega Landgræðslunnar þá eru þær einnig mjög merkar.

Ég ætla aðeins að lesa að sinni, umræðan er rétt að hefjast, það sem Náttúruverndarsamtök Íslands segja um andstæð markmið. Það er svona:

„Meginmarkmið loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er „að minnka nettólosun GHL“ — gróðurhúsalofttegunda — „um 50–75% fram til 2050, miðað við árið 1990.““ — Þetta er tilvitnun í hina frægu stefnumörkun í loftslagsmálum frá því í febrúar 2007 á sama tíma og verið var að semja frumvarpið. — „Með nettólosun er átt við losun að frádreginni bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu.

Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að útstreymi frá „stóriðju“ frá 1990 sem gæti fallið undir skilgreiningar íslenska ákvæðisins gæti aukist um allt að „1,1 millj. tonna umfram árlegar heimildir Íslands á tímabilinu 2008–2012 samkvæmt því ákvæði.““

Síðan rekja Náttúruverndarsamtökin beint úr frumvarpinu þær tölur sem þar eru kynntar til sögu um losun frá þeim álverum sem nú eru annaðhvort þegar í gangi eða eru að hefja starfsemi sína og reikna með stækkun í Alcan. Minna má á það að ef ekki verður af henni nemur hún nokkurn veginn Húsavík og Helguvík samanlagðri. Þeir segja síðan þetta:

„Þannig virðist íslenska ákvæðið“ — sem ég kalla hér undanþáguákvæðið og við í nefndaráliti okkar, þ.e. ákvæðið frá Marrakesh — „hafa laðað til sín fjárfestingar í stóriðju án þess að á móti komi trúverðug áform um samdrátt í útstreymi GHL. Gert er ráð fyrir tveimur nýjum álverum, í Helguvík og á Bakka á Húsavík. Hvorugt hefur fengið starfsleyfi en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samtals mundu þessi tvö álver auka útstreymi GHL á Íslandi um 820 þúsund tonn á ári. Þar af gætu 750 þúsund tonn fallið undir hið íslenska undanþáguákvæði en það skiptir tæpast máli því heimildir Íslands verða löngu uppurnar þann 1. janúar 2013.“

Náttúruverndarsamtökin minna á það lögfræðiálit sem þau létu vinna og hafa látið þýða í lokaorðin sem ég las áðan. Um leið og þau fagna frumvarpinu á svipaðan hátt og við höfum gert í stjórnarandstöðunni sem því skrefi sem það vissulega er — fyrsta skrefinu að því að taka mark á loftslagsvánni og reyna að standa við skuldbindingar sínar frá Kyoto og Marrakesh — vara þau alvarlega við þeim atriðum sem ég hef gagnrýnt. Ég bendi á þessa góðu umsögn sem ágætisinngang í þau fræði jafnframt

Ég lýk hér ræðu minni, forseti. Hún hefur tekið nokkuð langan tíma enda er um feikilega stórt mál að ræða og ég minni á að við höfum sett fram þrjár breytingartillögur sem ég bið þingheim að kynna sér og veit að þingheimur bregst vel við því á þeim tíma sem eftir er til þingloka. Að þeim breytingartillögum samþykktum getur frumvarpið verið verulegt skref fram á við í baráttu okkar gegn loftslagsvá með þá ábyrgð á herðum sem við berum gagnvart öllu mannkyni. Þó að við séum smá erum við hluti af því og við eigum ekki að lifa í eilífri undanþágutilveru eins og ríkisstjórnin virðist stefna að bæði fyrr og síðar.