133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:16]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. formanni fyrir prýðilegt andsvar. Nefndin vann mjög vel í málinu og hv. nefndarformaður vann mjög gott starf ásamt félögum sínum. Ég þakka honum fyrir prýðilegt starf í þessu máli eins og svo mörgum öðrum í nefndinni. Ég er ánægður með það viðhorf hans að hann telji að þetta eigi að leiða til þess að kennaranámið breytist þannig að það verði undirstöðunám, þriggja ára réttindanám, en svo geti stúdentarnir gengið beint inn í tveggja ára mastersnám því til viðbótar.

Ég er sannfærður um að ein mikilvægasta leiðin til að efla skólakerfið okkar allt saman, upp úr og niður úr, er að efla menntun kennara. Að sjálfsögðu á það við um leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Það leiðir til þess að þeir verða einfaldlega betur launaðir, fá sanngjarnari laun. Ég held að þetta haldist í hendur og að viðhorfið til stéttarinnar breytist með mjög jákvæðum hætti, bæði stemmningin í stéttinni sjálfri og viðhorfið til stéttarinnar almennt. Reynslan frá Finnlandi þar sem þeir fóru í að efla kennaramenntunina með mjög stórbrotnum hætti segir það. Það varð til þess að skólakerfið batnaði til muna. Sérhæfing kennaranna jókst eðlilega eftir því sem námið lengdist, þeir urðu öflugri fræðimenn á eftir, öflugri leiðbeinendur og kennarar. Ég held að það sama muni gerist hér.

Ég er ekki í neinum vafa um að ef við ætlum að efla skólakerfið með myndarlegum eða stórbrotnum hætti verður markmið næstu missira að setja mikið púður í kennaramenntunina þannig að fyrirkomulagið verði almennt eins og við höfum rætt hér. Ég tel að sameining Kennaraháskóla og Háskóla Íslands sem ég er almennt mjög hlynntur eigi að leiða til þess að kennaramenntunin breytist. Ég held að sameining þessara skóla geti orðið þeim báðum mjög til góðs og háskólamenntun almennt í landinu.