133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:28]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns ritar minni hluti menntamálanefndar, þ.e. hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna, sérálit í málinu þó svo að við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt. Það er kannski ekki algengt í þingsölum að svo sé en við sáum ástæðu til að koma ákveðnum sjónarmiðum til skila sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur gert grein fyrir í máli sínu.

Þeir sem í þessum sal starfa og þeir sem hafa starfað í menntamálanefnd bera auðvitað hag kennaramenntunar í landinu fyrir brjósti. Við höfum öll lýst því að það sé verulega mikilvægt að efla kennaramenntunina og gera hana þannig úr garði að hún verði sem best á hverjum tíma og ekki bara menntun almennra grunnskólakennara, heldur ekki síður menntun leikskólakennara, þroskaþjálfa og kennara annarra þeirra greina sem kenndar eru og kenndar hafa verið í Kennaraháskóla Íslands.

Kennaraháskóli Íslands hefur sjálfur sótt þetta mál fast og einnig Háskóli Íslands. Þar hafa farið saman tvær sterkar stofnanir sem sækja málið af sinni hálfu fast og hafa tekið þátt í því undirbúningsferli sem fram hefur farið, bæði sjálfstætt og síðan í því vinnuferli sem menntamálaráðherra setti í gang þegar fýsileikanefndin var sett á laggirnar, sú sem getið er um í athugasemdum með frumvarpinu.

Í samfélaginu er ákveðin tilhneiging til að fækka stofnunum. Margar stofnanir sem renna saman telja sig standa betur eftir sameiningu en áður. Það er því ekki auðvelt fyrir okkur sem stöndum utan við að færa fram rök gegn því sjónarmiði. Það sem veldur okkur þó kannski hugarangri eða vandræðum í þessum málum er að meta það námsframboð og þá menntun sem sameinuð stofnun mun veita. Það er afar erfitt að meta fyrir fram hvort menntun kennara verður betri eftir sameiningu en áður. Það sem skiptir máli er að fullur sómi sé að námsframboðinu og að í nýrri stofnun verði námsframboðið betra og öflugra en áður, þ.e. að sameiningin verði á endanum til styrkingar fyrir námið og námsframboðið með hag menntunarinnar og nemenda að leiðarljósi.

Í vinnu nefndarinnar barst okkur bréf frá prófessor við Háskóla Íslands, Jóni Torfa Jónassyni, bréf sem hann skrifaði Félagi háskólakennara vegna þessa frumvarps. Því bréfi fylgja fylgibréf sem Jón Torfi Jónasson hefur m.a. skrifað deildarforseta félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, Ólafi Þórði Harðarsyni. Jón Torfi Jónasson fer yfir sjónarmið sín í þessum efnum. Hann hefur ákveðnar efasemdir um að hér sé stigið farsælt skref. Hann segir í bréfi sínu að Kennaraháskóli Íslands sé að mörgu leyti öflug stofnun og nú þegar í mikilli þróun til umbóta. Hann segir að hann telji það ekki vera verkefnum stofnunarinnar til framdráttar að stíga það skref sem frumvarpið gerir ráð fyrir, raunar þvert á móti.

Rök Jóns Torfa eru fyrst og fremst þau að kennaramenntun Kennaraháskóla Íslands, sem er viðamikið sjálfstætt verkefni, sé betur komin í sjálfstæðu þróunarferli en innan vébanda Háskóla Íslands. Hann byggir sjónarmið sín á ýmsu sem hann hefur kynnt sér varðandi þróun háskóla í Evrópu og í Bandaríkjum Norður-Ameríku og segir að reynslan sýni að viðurkenning háskólastarfs á grundvelli afkasta í rannsóknum verði ekki aðeins skynsamlegt keppikefli flestra háskóla og háskólastarfsmanna heldur verði slík viðurkenning stundum allsráðandi markmið þannig að flest annað sé látið víkja. Jón Torfi segir að þessi staðreynd ráði þróun háskólakerfa einstakra skóla og einnig deilda innan skóla víða um lönd, hún sé að mörgu leyti eðlileg þegar til lengri tíma er litið en hann telur mikilvægt að hún gerist innan mun fjölbreytilegra reglukerfis en almennt rúmast innan einnar stofnunar eins og Háskóla Íslands. Þess vegna hefur Jón Torfi Jónasson talið það skynsamlegt að á Íslandi væru fjölmargir háskólar, hver með sitt reglukerfi vegna þess hve ráðrík regluveldin eru. Hann telur þá stefnu stjórnvalda sem birtist í þeim gögnum sem hér liggja fyrir og hér eru rædd, að setja alla ríkisháskólana inn í sama reglukerfið með sameiningu, afar misráðna. Hann telur sömuleiðis að ásókn Háskóla Íslands í stærri köku sem fæst með sameiningu stofnananna endurspegli ekki skynsamlega framtíðarsýn um uppbyggingu fjölbreytilegrar háskólamenntunar á Íslandi.

Hæstv. forseti. Ég kýs að nefna þetta hér án þess að fara í smáatriðum ofan í sjónarmið Jóns Torfa Jónassonar, prófessors við Háskóla Íslands, en ég verð að segja að mér finnst rök hans afar sannfærandi. Ef ég hefði haft tök á að fjalla um þau ein og sér við þá sem sækja mjög fast að af sameiningu verði hefði ræða mín annað inntak en hún hefur í raun. Eins og ég sagði áðan er ekki einfalt að fara gegn þessum vilja sem virðist mjög eindreginn og ákafur, bæði innan Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Ég hef því ákveðið að láta málið fara áfram með samþykki mínu á þeim nótum sem lýst er í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar sem eins og ég sagði áðan leggur ekki stein í götu málsins, heldur styður það þó að hún hafi kosið að gera sérálit um það.