133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[12:30]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er enn og aftur verið að breyta lögum um málefni aldraðra. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er kominn tími til að fara yfir löggjöfina í heild sinni eins og hefur verið lofað mörg undanfarin ár og nýlega hefur hæstv. heilbrigðisráðherra gefið aftur yfirlýsingar um að nú skuli farið í heildarendurskoðun á lögunum. Er það gott því ég tel að næsti hæstv. heilbrigðisráðherra geti þá tekið við boltanum og gert það sem núverandi ríkisstjórn hefur ekki treyst sér til. Það er kannski hluti af þessari heildarsýn. Breytingarnar eru ekki miklar í texta en geta verið töluverðar hvað varðar framkvæmd vistunarmatsins. Ég tek undir að það er mikilvægt að gera það faglega og að það sé samræmi í vinnubrögðum og hér er verið að leitast við að gera það.

Fyrirvari minn er sá að í lögum um heilbrigðisþjónustu sem við komum til með að taka fyrir sem næsta mál á dagskrá er gert ráð fyrir nýjum heilbrigðisumdæmum og þau geta verið stór. Það er ekki búið að setja það niður, það er sem sé samkomulagsatriði hversu stórum svæðum ákveðnar vistunarmatsnefndir eiga að sinna. Landfræðilega geta sum svæðin orðið mjög stór. Nú tala ég út frá reynslu frá Austurlandi. Ef við tökum Heilbrigðisstofnun Austurlands sem eina þjónustustofnun sem nær alveg frá Bakkafirði og niður á Djúpavog, þá væri ekki óeðlilegt að það væri ein vistunarmatsnefnd fyrir svæðið. Hún getur líka verið miklu, miklu stærri vegna þess að svæðið getur verið miklu stærra en þetta. Þá er það spurningin: Hver á að framkvæma úttektina? Ekki verða það aðilarnir sem sjá um matið. Það eru einhverjir aðrir sem gera úttektina. Ég held að það verði að huga að því í leiðinni að það sé vel skoðað hverjir eigi að gera það og hvort hægt sé að bæta þeirri vinnu ofan á aðra hjá viðkomandi stofnunum.

Ég hef annan fyrirvara, hæstv. forseti. Sá fyrirvari snýr að sveitarfélögunum því í dag þegar þjónustuhópar aldraðra eru bundnir við starfsemi hverrar sveitarstjórnar þá fer þetta saman að vistunarmatið er jú gert en síðan kemur þjónustuframboð viðkomandi sveitarfélags og vistunarmöguleikar hjá viðkomandi sveitarfélagi. Við vitum alveg að fleiri hafa hugsanlega verið vistaðir á dvalarheimilum en hefði nauðsynlega þurft eða á hjúkrunarheimilum sem nauðsynlega hefðu þurft heilsu sinnar vegna. En þar sem hefur háttað þannig til í sveitarfélaginu, jafnvel í dreifbýlum sveitarfélögum, þá hefur það verið talið hentugra fyrir alla að hinn aldraði væri á dvalarheimili og að hann fengi þar hjúkrun eða inni á hjúkrunarheimili.

Ef matið á að vera faglegt, sem það á að vera, og eingöngu vistað samkvæmt því, þá trúi ég að það muni koma töluverður kostnaður yfir á sum sveitarfélög sem verða þá að auka félagsþjónustu sína að sama skapi. Nú er ég ekki að segja að það sé akkúrat sú þróun sem við viljum og að þannig þjónustu viljum við hafa. En það verður að taka tillit til þess hvað varðar tekjustofna sveitarfélaganna að þeir hafi tök á því að veita nærþjónustuna ef henni hefur ekki verið sinnt fyllilega fram að þessu. Ég veit að sveitarfélög vilja sinna þessu en þetta er spurning um möguleika. Enn er verið að loka hjúkrunarheimilum, t.d. á Djúpavogi sem sveitarfélagið á í rekstrarerfiðleikum með. Hvað á að gera? Á að loka? Hvert á að senda fólkið ef sveitarfélagið hefur ekki tök á að sinna félagslegu þjónustunni í nærþjónustunni? Ég vil því benda á að þetta getur líka haft þessar afleiðingar.