133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

fjarskipti.

436. mál
[14:19]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er verið að setja lítil internetþjónustufyrirtæki undir lagasetninguna sem nær yfir símafyrirtæki sem veita internetþjónustu líka. Þessi litlu internetfyrirtæki hafa með sér samtök sem heita Inter. Inter var ekki kallað til umsagnar til að byrja með heldur á síðari stigum þannig að athugasemdir þeirra bárust þann dag sem málið var tekið úr nefndinni.

Hv. formaður samgöngunefndar var nú svo vinsamlegur að kalla ráðuneytismenn aftur inn til umræðu um málið vegna þeirra athugasemda sem fram komu. En athugasemdirnar lutu að þremur atriðum, þ.e. að binditímanum sem reyndar öll fyrirtækin gerðu athugasemd við og vildu hafa heldur lengri. Önnur athugasemdin var að litlu fyrirtækin töldu að með þessari nýju lagasetningu væri verið að setja þau undir gjaldtöku fyrir þjónustu sem þau nytu ekki. Og í þriðja lagi vildu þau fá inn í frumvarpið ákvæði sem heimilaði þeim að gera samning við viðskiptavini sína um að sía frá ruslpóst en í rauninni er ákvæði í lögunum sem banna að ruslpóstur sé síaður frá.

Þau bentu á að það gæti orðið þrautin þyngri fyrir lítil og veikburða fyrirtæki sem þessi litlu internetfyrirtæki eru flest ef þau lentu í málaferlum, að standa undir lögfræðikostnaði. En niðurstaðan eftir samræður við samgönguráðuneytið, eða fulltrúa þess, varð sú að fyrirtækjunum væri heimilt að gera samninga við viðskiptavini sína þannig að þeir merktu við það hvort heimilt væri að sía frá ruslpóst, sem er reyndar mjög mikilvæg og góð þjónusta fyrir allan almenning sem þessi fyrirtæki veita.

Nauðsynlegt er að mínu mati að það komi fram á Alþingi að þessum fyrirtækjum er heimilt að gera slíka samninga þannig að það staðfestist hér að það er skilningur löggjafans að þetta sé heimilt, því mér heyrðist að það kæmi ekki fram í máli hv. formanns samgöngunefndar áðan.

Mitt mat er reyndar það að hægt hefði verið að koma fyrir grein í lögunum sem heimilaði ótvírætt að hægt væri að gera samninga um þess konar þjónustu sem í þessu felst en fulltrúar ráðuneytisins vildu ekki fallast á það.

En binditíminn er sem sagt sex mánuðir þrátt fyrir að öll fyrirtækin vildu gjarnan hafa hann lengri. Rök þeirra fyrir því að vilja hafa tímann lengri eru þau að með binditíma er einfaldlega verið að láta viðskiptavininn borga nýjan búnað á einhverjum tilteknum tíma. Það er ekkert öðruvísi. Eftir því sem tíminn er styttri þarf viðskiptavinurinn væntanlega að borga hann á hærra verði á mánuði. En auðvitað eru svo önnur rök á móti þessu, þ.e. að viðskiptavinurinn á að eiga hægt um vik að færa sig á milli þjónustuaðila og njóta þjónustunnar þar sem hún er best.

En það sem ég hefði helst viljað koma til móts við í lagasetningunni er þetta með ruslpóstinn, heimildina til að sía hann út og tel nauðsynlegt að það komi fram í máli okkar sem í nefndinni sitjum að samkvæmt okkar skilningi, skilningi löggjafans, er heimilt að gera samning við viðskiptavininn um það efni.