133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

588. mál
[15:30]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Farið hefur verið ágætlega yfir málið. Ég vil eingöngu hnykkja á ákvæðinu um tækifærisleyfi í 17. gr. og skýringunni með þeirri grein. Eins og komið hefur fram hjá öllum ræðumönnum var töluvert rætt um hana, þ.e. heimild sýslumanna til að rukka fyrir slík tækifærisleyfi. Í skýringum með 17. gr. var m.a. talið upp að þetta ætti ekki við um þjóðhátíðardaginn, menningarnótt í Reykjavík, Reykjavíkurmaraþon og sjómannadaginn enda væru slíkir atburðir almennt ekki í atvinnuskyni eða aðgangur seldur að þeim.

Í nefndinni varð töluverð umræða um aðrar útihátíðir, sambærilegar við menningarnótt í Reykjavík. Þar kom enn einu sinni fram óánægja með að útihátíðir víðast hvar úti á landi skuli rukkaðar um verulegan löggæslukostnað meðan dæmi er um hátíðir á höfuðborgarsvæðinu eins og menningarnótt, sem ekki er rukkað fyrir.

Við jafnaðarmenn, sem við erum flest í hjarta okkar, vildum að jafnt gengi yfir alla. Þess vegna var fjallað um þetta í nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Töluverð umræða varð í nefndinni um 17. gr. frumvarpsins um tækifærisleyfi. Nefndin áréttar að umrætt ákvæði gildi einungis um skemmtanir og atburði sem fara fram utan veitinga- og gististaða í atvinnuskyni. Undir ákvæðið falla því ekki atburðir og skemmtanir“ — svo kemur það sem ég vil hnykkja á — „á vegum sveitarfélaga, t.d. bæjarhátíðir og æskulýðs- og íþróttahátíðir sem ekki eru haldnar í atvinnuskyni, en í slíkum tilvikum er aðgangur ekki seldur að skemmtun eða atburði.“

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að þetta skuli koma inn sem lögskýring í nefndarálit, þ.e. túlkun nefndarinnar á þessu atriði. Með samþykkt frumvarpsins lít ég svo á að um allar bæjarhátíðir, sama hvar þær eru haldnar á landinu, muni gilda hið sama, að ekki verði rukkað fyrir þær eins og gert hefur verið hingað til. Það kom líka fram í nefndinni. Ég ræddi m.a. um ágæta bæjarhátíð í mínum heimabæ, þ.e. Síldarævintýrið, sem nánast var hætt við í fjölmörg ár vegna þess að einn aðili rukkaði svo mikið og var að gera út af við þetta, þ.e. sýslumaðurinn sem rukkaði löggæslukostnað fyrir hönd dómsmálaráðuneytis.

Með þessu er það skoðun mín, og vonandi allra sem í nefndinni voru, að allir sitji við sama borð hvað þetta varðar, sama í hvaða bæ viðkomandi bæjarhátíð er haldin, hvort sem hún er í Reykjavík eða á Raufarhöfn, Siglufirði, Suðurnesjum eða á öðrum (Gripið fram í: Dýrafirði eða Skagafirði.) stöðum á landinu.