133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

vegalög.

437. mál
[15:54]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Undir nefndarálit um frumvarp þetta til vegalaga sem hér er til 2. umr. eftir vinnu samgöngunefndar skrifa ég ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar með hefðbundnum fyrirvara.

Ég vil nefna að einn af þingmönnum okkar jafnaðarmanna, Einar Már Sigurðarson, var í þeirri undirbúningsnefnd sem vann að gerð þessa frumvarps og það er tvímælalaust til bóta á mjög mörgum sviðum. Síðan tek ég eftir því að komið hafa fram breytingartillögur eftir á sem gera frumvarpið kannski enn betra þannig að víðtækari sátt verður um það, sem ég fagna auðvitað.

Ég ætla aðeins á þeim örstutta tíma sem við höfum fyrir þetta mál að fagna sérstaklega því sem tekið var tillit til í því sem ég sagði við 1. umr. málsins, þ.e. þar sem ég gagnrýndi mjög að sveitarfélög sem sannarlega fara með skipulagsvald gátu skipulagt vegi að þjóðvegum. Ég tók sem dæmi Borgarnes þar sem hæstv. landbúnaðarráðherra keyrir oft um en í Borgarnesi voru gerð vegamót sem ég held að ekki séu til að auka umferðaröryggi og þess vegna var það tekið inn í nefndarálitið og inn í frumvarpið að sveitarstjórnum sé óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar um legu þjóðvega ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér.

Þetta er veigamikið atriði og er kannski merkilegasta breytingin sem gerð var. Hún er tvímælalaust til bóta vegna þess að við getum ekki látið það gerast áfram að hagsmunir skarist milli skipulags sveitarfélaga og almennra vegfarenda, umferðaröryggismála og Vegagerðarinnar. Ég fagna því að það sé komið hér inn.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef áður sagt styðjum við þingmenn Samfylkingarinnar þetta frumvarp og teljum það tvímælalaust til bóta.