133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[16:57]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einungis örstutt athugasemd. Ég ætla ekki að fara í mikla umræðu um vændismálin en í tilefni af því að hv. þingmaður lét þess getið að refsinæmið vegna vændis lægi í raun og veru hvergi þá hlýt ég að þurfa að benda sérstaklega á 12. gr. frumvarpsins sem tekur á vændismálunum en þó ekki með þeim hætti sem hv. þingmanni þóknast best. Í samhengi við þá blaðagrein sem hv. þingmaður tók til sem dæmi um vændi sem ætti sér stað á Íslandi þá er tilvitnaðri lagagrein, 12. gr. frumvarpsins, sérstaklega beint gegn slíkri milligöngu um vændi í raun og veru. Jafnframt er ákvæði frumvarpsins um bann gegn opinberri auglýsingu ætlað að taka á bæði kaupanda- og seljendahliðinni. Þannig skiptir það ekki máli hvar auglýsing birtist og hvort hún stafar frá þeim sem býður fram vændið, sækist eftir vændinu eða hefur milligöngu um birtingu vændisins. Allt er þetta refsivert. Ég vek athygli á þessu í tilefni af orðum hv. þingmanns um að hvergi sé tekið á refsinæmi vændis í frumvarpinu.