133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:38]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Breytingartillaga mín lýtur að gildistökunni. Ég legg til að horfið verði frá þeirri bjartsýni að þessi lög taki gildi 1. september nk. með tilliti til þess að þetta er rammi utan um stjórnsýslu heilbrigðisþjónustunnar. Eftir á að setja a.m.k. 15 ef ekki fleiri reglugerðir til að fylla upp í þjónustuna. Ég veit ekki hvernig það á að vera hægt að vinna málið með þeim hraða.

Nógu hratt unnum við í heilbrigðis- og trygginganefnd og þá sérstaklega hér í þessum sal í dag við að afgreiða þetta mál. Ég tel að úrvinnsla málsins og reglugerðarheimildirnar allar þurfi að vinnast á lengri tíma og því legg ég til að lögin taki gildi 1. janúar 2008. Ég held að það sé raunhæfara en 1. september 2007.