133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[22:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek eindregið undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni í þessu efni. Það er ákaflega sérkennilegt að varaformaður nefndarinnar sé með fyrirvara á áliti hennar. Ég vil minna á að það hefur verið háttur okkar stjórnarandstæðinga þegar við erum á nefndarálitum að setja við þau fyrirvara vegna þess að við erum kannski ekki algjörlega sátt við það nefndarálit sem í boði var eða við náðum samkomulagi um og þær breytingartillögur en viljum samt styðja málið. Þá gerum við grein fyrir fyrirvara okkar í ræðum.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson er ekki hér staddur til að gera grein fyrir þessum fyrirvara og ég tók eftir því í dag að þar var Guðjón Ólafur Jónsson staddur aftur með fyrirvara á nefndaráliti um almenn hegningarlög sem hann gerði heldur ekki grein fyrir.

Þá er auðvitað spurningin sú, forseti, hvort menn ætli að nota þennan fyrirvara í einhverju öðru skyni utan þingsala til að sýna að þeir hafi þrátt fyrir allt ekki verið hluti af því samkomulagi sem gert var. Í Vatnajökulsþjóðgarðinum tókst ákveðið samkomulag eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson gerir sér vel grein fyrir. Það var ekki á neinn hátt auðvelt að ná því samkomulagi og það náðist ekki bara á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur er alveg augljóst að það náðist líka á milli fulltrúa kjördæma, fulltrúa Suður- og Norðausturkjördæma annars vegar, sem eiga land að þessu svæði, og hins vegar okkar hinna sem erum fulltrúar annarra landsmanna samkvæmt kjördæmaskipaninni.

Ég tek því eindregið undir með hv. þingmanni í þessu efni og þakka honum fyrir að hafa vakið máls á þessu í þeim takmörkuðu umræðum sem hér er samkomulag um að hafa. Ég skora á forseta að koma þessum skilaboðum til Guðjóns Ólafs Jónssonar. Nú, hann stendur þarna utan salar og getur þá tekið við þeim beint, og ég skora á Guðjón Ólaf Jónsson að gera grein fyrir fyrirvara sínum við þetta mál og reyndar við hið fyrra líka.