134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

rannsókn kjörbréfs.

[15:31]
Hlusta

Frsm. kjörbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti og tillögum kjörbréfanefndar sem lagt hefur verið fram.

Kjörbréfanefnd hefur haft til athugunar kjörbréf þau sem landskjörstjórn gaf út 20. maí 2007 í samræmi við úrslit alþingiskosninga sem fram fóru 12. maí sl. Nefndinni barst bréf dómsmálaráðuneytis, dags. 18. maí 2007. Bréfinu fylgdu í lokuðu umslagi sjö ágreiningsseðlar ásamt endurriti úr gerðabók yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður en yfirkjörstjórnin hafði úrskurðað kjörseðlana ógilda og umboðsmaður stjórnmálasamtaka gert ágreining um þann úrskurð. Í samræmi við ákvæði 104. gr. kosningalaga voru ágreiningsseðlanir sendir Alþingi til úrskurðar.

Við rannsókn kjörbréfanefndar kom í ljós að allir seðlarnir voru með sams konar frágangi. Strikað hafði verið yfir nafn eins eða fleiri frambjóðenda á lista en ekki merkt við listabókstafinn. Ekki hafði verið átt við aðra lista á kjörseðlinum eða önnur merki gerð. Nefndin telur ágreiningsatkvæðin ekki fara augljóslega í bága við 101. gr., samanber 100. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Niðurstaða nefndarinnar er því sú að meta ætti gild þau sjö ágreiningsatkvæði í Reykjavíkurkjördæmi suður sem send voru Alþingi til úrskurðar. Atkvæðin skiptast þannig milli framboða:

Eitt atkvæði greitt B-lista Framsóknarflokks, fimm atkvæði greidd D-lista Sjálfstæðisflokks og eitt atkvæði greitt S-lista Samfylkingarinnar.

Nefndin hefur gengið úr skugga um að þessi ákvörðun hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Aðrir ágreiningsseðlar hafa ekki borist og engar kosningakærur hafa heldur borist.

Nefndin leggur til í samræmi við 46. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 1. gr., samanber 5. gr. laga um þingsköp Alþingis, að kjörbréf aðalmanna og varamanna verði samþykkt eins og þeir eru tilgreindir í áliti og tillögum nefndarinnar sem lagt hefur verið fram.

Undir þetta álit rita hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Bjarni Benediktsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgir Ármannsson, Helgi Hjörvar, Atli Gíslason, Magnús Stefánsson og Jón Magnússon.