134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[16:14]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil eingöngu ítreka það sem hér hefur komið fram, að það er ákvörðun þingflokka stjórnarflokkanna að leggja fram frumvarp til breytinga á þingsköpum. Það hefur verið sagt frá því og ég votta að það er búið að samþykkja það frumvarp í þingflokki sjálfstæðismanna. Mér þykir það nokkuð sérkennileg uppákoma ef ekki er hægt að ljúka afgreiðslu með þeim hætti sem við höfum lagt til. Við erum hér með þingræði. Mér þykir hv. þingmaður Kristinn H. Gunnarsson gera heldur lítið úr því að á bak við ríkisstjórnina, bak við stjórnarmeirihlutann, eru 43 þingmenn á þessari skoðun. Það er skoðun þessara þingmanna að svona beri að standa að málum.

Mér koma verulega á óvart þau gífuryrði sem hér hafa komið fram. Ég vil enn og aftur ítreka að við samþykkjum þessi afbrigði og göngum til kosninga um þær nefndir sem tillaga er um að kjósa til á þessum þingfundi.