134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[15:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Hvað varðar undirbúning málanna ætti það að gerast í mun minna mæli en hingað til hefur gerst að kröfur verði gerðar inn í þinglýstar landareignir samkvæmt landamerkjum samkvæmt lögunum frá 1882. Það er alls ekki hægt að útiloka að í einhverjum tilfellum verði slíkrar kröfur gerðar einfaldlega vegna þess að Hæstiréttur hefur margsinnis úrskurðað á þá vegu að það þurfi að skoða þinglýst landamerki samkvæmt þeim lögum sem ég vitnaði í áðan, hvert og eitt fyrir sig til þess að komast að niðurstöðu þó að almennt megi telja að þinglýstu landamerkin gildi.

Ef það eina sem hv. þingmaður fer rangt með í þessum stóli á þingtíð sinni eru ávörpin held ég að hann verði farsæll þingmaður.