134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

strandsiglingar.

[15:39]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að gremja vinstri grænna skuli koma hérna fram í óundirbúnum fyrirspurnum. Það er ekkert verra að fá þær ofan í umræðuna um stefnuræðu forsætisráðherra. Við hlustuðum auðvitað á formann Vinstri grænna í stefnuumræðunni lýsa því hvað menn væru svekktir og sárir og súrir og allt það eftir ríkisstjórnarmyndun.

Þau stóru orð sem hér hafa verið viðhöfð af hv. þingmanni hitta held ég helst fyrir hann sjálfan. Hann spurði um Vestmannaeyjar og hvað við ætluðum að gera. Ég lýsti því sem er í gildandi samgönguáætlun sem m.a. þingflokkur Vinstri grænna, meðan hann taldi fimm menn, sat hjá og var ekki á móti.

Það er það verkefni sem við erum að vinna að núna og eftir þessa einu og hálfu viku í tíð núverandi ríkisstjórnar er hún enn þá í gildi og það er unnið eftir henni.