134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[17:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er hæstv. forsætisráðherra kominn í gírinn og farinn að kenna okkur þingmönnum hvernig þetta eigi að ganga fyrir sig hérna og að við eigum ekki að vera með óþarfamúður um hlutina. Já, þetta er vegna vinnuálagsins í efnahags- og viðskiptanefnd. Það er vissulega rétt að þingnefndirnar eru misþungar en þó er það mjög breytilegt eftir árum. Það er t.d. alls ekki svo að sjávarútvegsnefnd eða landbúnaðarnefnd hafi alltaf haft lítið að gera. Stundum hafa þær verið aðalnefndir þingsins. Það skyldi nú ekki fara svo að sjávarútvegsnefnd Alþingis hefði ærið að starfa næstu vikurnar, mánuðina og missirin ef svo heldur sem horfir með ástandið í sjávarútveginum og það yrði fullt verkefni fyrir eina þingnefnd að fara með þau mál? Ég sé ekki betur en að verið sé að búa til aðra mjög þunga nefnd með því að sameina þessa málaflokka tvo í eina þingnefnd.

Fjárlaganefnd er gríðarlega störfum hlaðin frá hausti og fram að áramótum, engum dettur í hug að skipta henni upp. Nei, menn fjölga að vísu í þeirri nefnd og hafa þar meiri liðsafla og það væri auðvitað hægt að hugsa sér að gera það, að styrkja efnahags- og viðskiptanefnd þannig út af fyrir sig ef menn hefðu áhyggjur þar af vinnuálaginu. Einhvern veginn hefur þetta allt saman gengið hér að undanförnu og það hefur verið eftirsótt að vera í efnahags- og viðskiptanefnd þannig að það eru fátækleg rök.

Framkvæmdarvaldið er auðvitað að hlutast til um innri mál þingsins með þessum hætti, aðferðafræðin sýnir það. Ég fór yfir það í framsögu minni — og það er nú gaman að hafa hæstv. forsætisráðherra loksins í salnum — að hér er brotin órofa hefð, a.m.k. á lýðveldistímanum, sem hefur verið sú að allar meiri háttar breytingar á þingsköpum hafa verið gerðar í samkomulagi og frumvörp þar um hafa ævinlega verið flutt af fulltrúum allra flokka eða forsætisráðherra eða forseta fyrir hönd þeirra á grundvelli samkomulags sem fyrir hefur legið. Hæstv. forsætisráðherra situr uppi með það að hann ber ábyrgð á því að rjúfa þessa hefð hér einhliða (Forseti hringir.) án þess að hafa lyft litla fingri til þess að reyna að ná um þetta samkomulagi.