134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:30]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er rétt. Ég hefði talið eðlilegt, fyrst að farið er af stað með þessum hætti, að stjórnarflokkarnir hefðu átt að ganga lengra, eins og þeir hafa sjálfir ályktað, þ.e. að setja á stofn atvinnuvegaráðuneyti. Það yrði þá ráðuneyti sem í væri landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn, iðnaðarmálin og viðskiptamálin. Báðir flokkarnir hafa ályktað um það en þeir heykjast á því og gera það ekki.

Í heild sinni er málið þannig að verið er að reyna að einfalda stjórnsýsluna, eins og ég skil það. Þarna eru málaflokkar færðir á milli. Sumt af því er ágætt en annað gerum við verulegar athugasemdir við. Sumt vitum við ekki alveg um meira en við höfum heyrt einhverjar sögusagnir um. Ég tel eðlilegt að lífeyristryggingar fari yfir í félagsmálaráðuneytið en ég hef efasemdir um að sjúkratryggingarnar eigi að fara þangað. Svona mætti lengi telja.

Mér finnst mikilvægt að við, sem munum fjalla um þetta mál í allsherjarnefnd og ekki bara við heldur reyndar þingmenn allir, fáum betri upplýsingar um verkaskiptingu ráðuneytanna. Það er eðlilegt að þingmenn fái upplýsingar um það. Að minnsta kosti um allt það sem er tilbúið. Ég átta mig á því og það hefur komið fram í tali hæstv. forsætisráðherra að ekki sé allt tilbúið, stjórnarflokkarnir eru enn að semja um þessi mál. Þeir ættu samt að upplýsa um það sem búið er að semja um þannig að við séum með þokkalega hreint borð hvað það varðar.