134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:17]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir vænt um þessa spurningu hv. þingmanns. Því sannarlega hef ég ekkert á móti menntamálaráðuneytinu og störfum þess. Hins vegar hef ég hér vitnað til þess, bæði hvað sjávarútveginn og iðnaðinn varðar, að mörgum finnst að greinar þessa atvinnulífs hafi ekki þrifist sem skyldi. Margir óttast að þegar landbúnaðarháskólarnir hverfa inn í þá hít sem menntamálaráðuneytið er, þá hafi þeir ekki þann forgang og sérstöðu sem þeir hafa um leið og þeir hafa verið byggðir upp í tengslum við atvinnuveginn sjálfan. Þess vegna hef ég kannski gert mér grein fyrir því, hv. þingmaður, að þetta mundi gerast.

Ég nefni það hér sem dæmi að stærri hluti af vísindamönnum landbúnaðarins sem þjóna íslenskum landbúnaði, þeir eru undir þessum skólum sem atvinnuveginum. Það þarf auðvitað að ná samkomulagi um hvernig þeir þjóna atvinnuveginum áfram.

En ég bið fyrir alla muni þá stjórnarliða sem hér eru að vanda sig í þessu verki og fara yfir það. Ég hefði kosið að hafa þetta óbreytt, ekki síst vegna þeirrar miklu þróunar sem er í atvinnugreininni og í þessum skólum. Ég gat þess hér að nemendafjöldi í þessum skólum er nú sennilega hátt á fimmta hundrað, mikil þróun. Þeir eru á landsbyggðinni, gegna sérstöku hlutverki. Ég hef velt fyrir mér hvort sjálfseignarformið komi til greina sem getur verið til að styrkja þá enn meira og skapa þeim meiri sérstöðu. Þannig að ég hef verið að velta hér vöngum yfir því hvernig best væri að standa að þessu vandaverki ef svo færi.

Ég viðurkenni að ég er andvígur því. Mörgum sýnist að það sé sjálfsagður hlutur að færa þá. Ég minni á Stýrimannaskólann. Ég minni á skóla iðnaðarins. Hvar eru þeir? Þeir hafa því miður ekki þrifist sem skyldi. Þannig að það eru (Forseti hringir.) þessi varnaðarorð sem ég er fyrst og fremst að koma að.