134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:54]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Það hefur margt verið andsnúið undanfarnar vikur. Okkur hefur alls ekki tekist að byggja upp þessa fiskstofna, það eru mjög mikil vandræði og mjög mikil vonbrigði. Við höfum líka lifað við það að hágengis- og hávaxtastefnan hefur ekki staðist og rekstrarstaða útflutningsatvinnuveganna er löngu orðin óviðunandi. Við höfum rætt þetta oft áður. Það er hægt að grípa til aðgerða, Samtök atvinnulífsins hafa nú gert kröfu um það til ríkisvaldsins að þeirri stefnu verði breytt. Samtök atvinnulífsins standa heil að þeirri kröfu.

Það er líka fleira sem hefur orðið okkur til erfiðleika eins og samkeppnisstaða vegna samgöngumálanna. Ríkisvaldið getur víða komið þar að, ekki síst með því að lengja flugbrautir, það er mjög þarft til þess að jafna stöðuna.

Gagnvart Flateyri sem menn hafa rætt hér töluvert um geri ég fastlega ráð fyrir því að fiskvinnslueignir þar, hús, vélar, tæki og áhöld, muni fá nýja eigendur innan skamms. Þeir eigendur munu reyna að hefja nýja starfsemi en það verður ekki auðvelt nema til komi ný forsenda efnahagsmála. Það er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt og hefur margsinnis verið gert áður að hið opinbera hefur komið og aðstoðað ný fyrirtæki við að búa til ný störf og ný verðmæti.

Ríkisstjórnin lítur þannig á og hefur gefið út yfirlýsingar um það að hún ætli að standa að þessum hlutum, hún ætli að styrkja þá. Ég hef fulla trú á þeim ráðherrum, hæstv. iðnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem hefur verið falið þetta verk. Ég hef fullkomna ástæðu til að ætla að þeir muni af fremsta megni gera allt sem stjórnvöld geta gert til að hjálpa þessu en það mun ekki takast nema við breytum gjörsamlega forsendunum fyrir peningamálastefnunni. (Forseti hringir.) Hún er forsendan, henni verður að breyta.