134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[14:04]
Hlusta

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og svör sem gefin hafa verið hér við þær umræður sem hafa átt sér stað. Það er von mín að hugur fylgi máli og að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson, beiti öllum sínum kröftum til að koma til móts við þann vanda sem hér er um að ræða. Fyrir alla muni, þetta mál þolir ekki bið.

Ég er mjög ánægð með að heyra að verið sé að færa störf til Vestfjarða. Það er vel og ánægjulegt að uppi séu hugmyndir um að bæta kjör og aðstæður þessa fólks. Ég vona að það gangi eftir.

Ég vil þó árétta hér áhyggjur mínar af stöðu íbúanna sem í einu vetfangi missa atvinnu sína og standa frammi fyrir því að eignir þeirra eru jafnvel verðlausar. Íbúar flytja burtu, jafnvel á móti sínum eigin vilja. Hugsum okkar öll að við stöndum í þeirra sporum.

Nýja ríkisstjórnin sem ég býð velkomna til starfa og óska velfarnaðar í starfi leggur áherslu á að hafa raunverulegt jafnrétti að leiðarljósi í allri stefnumótun sem skapi öllum landsmönnum jöfn tækifæri, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á fimmtudaginn. Vonandi verða verkin látin tala þar. Raunverulegt jafnrétti fyrir fólkið í landinu, takk.