134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:12]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er hálfbroslegt. Við sem berum hag sjávarbyggða fyrir brjósti vildum að hér yrði kosið í sjávarútvegsnefnd strax í upphafi þings. Það var ekki gert. Það var ekki farið að þingsköpum, heldur notaði ofurmeirihlutinn vald sitt til að koma í veg fyrir að farið yrði að þingsköpum og kosið í hefðbundnar nefndir þingsins eins og þingsköp gera ráð fyrir. Það er nú öll umhyggjan sem meiri hlutinn ber fyrir hinum dreifðu byggðum landsins.

Við erum búin að upplifa frá upphafi þings að nokkrar nefndir eru ekki að störfum af því að ekki er búið að skipa í þær. Hér er nefndalaust að þessu leyti. Það er nú öll umhyggjan sem stjórnarflokkarnir bera fyrir málaflokkunum.

Í staðinn er því núna flýtt að breyta þingsköpum án þess að búið sé að breyta Stjórnarráðinu. Það kemur skýrt fram í greinargerð með málinu með ríkisstjórnarfrumvarpinu að þingnefndirnar endurspegli Stjórnarráðið og málaflokkana innan þess. En hér er byrjað á öfugum enda. Við eigum sem sagt að klára fyrst hvernig fastanefndirnar líta út og síðar á að ganga frá skipan Stjórnarráðsins. Þessi vinnubrögð eru afar óeðlileg.

Ég minni líka ofurmeirihlutann á að í stefnuyfirlýsingu hans segir að ríkisstjórnin muni leitast við að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess. Þetta er nú öll virðingin sem borin er fyrir sjálfstæði þingsins og þetta er hið svokallaða góða samstarf við alla flokka á Alþingi, þ.e. að skipa hér ekki í nefndir eins og eðlilegt er, tefja það með þessum hætti og byrja á öfugum enda, klára þingsköpin áður en við breytum Stjórnarráðinu.

Þetta er þvert á það sem segir í greinargerðinni frá sjálfum meiri hlutanum. Það er eins og meiri hlutinn hafi ekki farið yfir sitt eigið mál með því að sundurskilja vinnslu þessara tveggja mála. Að sjálfsögðu á að vinna þau saman. Allt annað er óeðlilegt. Við höfum heldur ekki fengið upplýsingar í allsherjarnefndinni um hvaða málaflokkar eigi að falla undir ráðuneytin. Það er einhver leynilisti sem við höfum ekki fengið að sjá þrátt fyrir að fjármálaráðuneytið gefi umsögn um að 41 starfsmaður verði fyrir áhrifum af breytingunum sem verða síðar. 41 starfsmaður er mjög nákvæm tala. Hér er eitthvað að baki sem við höfum ekki fengið að sjá.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mjög óeðlileg vinnubrögð að ræða.