134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[14:42]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um þingsköp Alþingis og eru flutningsmenn þess eingöngu þingflokksformenn stjórnarmeirihluta. Það er einsdæmi. Það er áratugahefð fyrir því á Alþingi að leitað sé eftir samkomulagi allra þingflokka og mynduð þverpólitísk samstaða um breytingar á lögum um þingsköp. Sú hefð hefur nú verið brotin í fyrsta skipti, í það minnsta frá seinni heimsstyrjöld.

Maður spyr sig: Er erindið svo brýnt? Af hverju? Af hverju þurfti að brjóta þessa áratuga þinghefð á svo litlum grundvelli? Þeirri spurningu hefur alls ekki verið svarað. Spurningin verður enn þá ásæknari og áleitnari vegna stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og ummæla sem hér hafa verið viðhöfð í ræðustóli.

Fyrsti minni hluti allsherjarnefndar gagnrýnir meiri hluta nefndarinnar harðlega og bendir á að þau séu í hróplegu ósamræmi við yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en í henni segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess.“

Það hefur ekkert samstarf verið í gangi frá byrjun þessa sumarþings, ekkert. Ef þetta á að heita gott samstarf samkvæmt stefnuyfirlýsingunni, hvers á þá að vænta ef það hleypur snurða á þráðinn í samstarfinu? Hvers er þá að vænta miðað við þær aðferðir sem beitt hefur verið hér, þegar til voru aðrar leiðir, sátta og samlyndis sem hefðu, herra forseti, flýtt þessu þinghaldi verulega og gert það skilvirkara?

Þetta er sérkennilegt í ljósi ummæla hæstv. utanríkisráðherra í eldhúsdagsumræðu hér í liðinni viku. Þar sagði hún orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Ný ríkisstjórn er byrjuð á því verki að stokka upp verkaskiptingu ráðuneyta og innleiða ný vinnubrögð hjá framkvæmdarvaldinu. Ég vil leyfa mér að færa fram þá ósk að við sameinumst um að bæta vinnubrögð einnig hér á Alþingi Íslendinga. Okkur ber að vera öllu lýðræðislegu félagsstarfi í landinu góð fyrirmynd. Við eigum að leita sáttaleiða þegar þær eru færar en virða grundvallarmun á afstöðu án svikabrigsla eða stóryrða.“

Hæstv. utanríkisráðherra kolfellur á fyrsta prófi sínu, og ríkisstjórnin, hinu lýðræðislega prófi. Það er viðurkennt af hv. formanni allsherjarnefndar að til voru sáttaleiðir í málinu. Ein leið var afar fær. Hún var sú að kjósa allar nefndir strax. Ég veit ekki betur en það hafi verið fullt samkomulag um nefndaskipan og enginn ágreiningur komið upp varðandi skipan í þær nefndir sem í var kosið í síðustu viku. Þingsköp gera ráð fyrir því að kjósa skuli. Ég leyfi mér að efast um að afbrigðaheimildin heimili þessi frávik, ég hef efasemdir um það. Það stendur: „Það skal kjósa.“

Hvert var svo vandamálið, virðulegi forseti, á því að kjósa upp á nýtt þegar kosningin í nefndirnar sem voru kosnar í síðustu viku tóku tíu mínútur? Það hefði þá tekið fimm mínútur í viðbót að kjósa nýjar nefndir, að samþykktu frumvarpi um breytingar á þingsköpum. Það var nú allur vandinn. Þar lá sáttaleiðin. Um þetta gátum við komið okkur saman, um vinnulag. Í stað þess hefur trekk í trekk verið rætt um fundarstjórn herra forseta sem hefði verið óþarft ef sáttaleið, samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, og ég tala nú ekki um ummælum hæstv. utanríkisráðherra, hefði verið fylgt. Svo einfalt var það, þ.e. að byrja samráð með því að tala saman. En það hefur ekkert verið talað saman, menn eiga ekki í samræðu og það er ekki hægt að komast að sátt nema með samræðum. Í slíka samræðu, herra forseti, er ég fús hvenær sem er og hvar sem er til að flýta fyrir þingstörfum og gera þau skilvirkari.

Fyrsti minni hluti telur í fyrsta lagi að vinna eigi að málinu og skoða frumvarpið samhliða frumvarpi um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands eða afgreiða það frumvarp á undan því frumvarpi sem hér um ræðir. Það gefur augaleið vegna þess að stjórnarráðsfrumvarpið veitir þessu frumvarpi efnisinntak sem hér er til umræðu. Þau eru nátengd eins og síamstvíburar.

Í öðru lagi telur 1. minni hluti óforsvaranlegt annað en fjallað verði sameiginlega um frumvörpin með venjubundnum hætti, þau send til umsagnar fagaðila og hagsmunasamtaka, þar á meðal stéttarfélaga starfsmanna. 1. minni hluti mótmælir sérstaklega þeim ámælisverðu vinnubrögðum meiri hlutans að ljúka umfjöllun um málið á einum stuttum nefndarfundi í kvöldmatarhléi, hafna öllum óskum um eðlilega þinglega meðferð og taka málið órannsakað úr nefnd með afli atkvæða meiri hlutans.

Í hvaða stöðu var minni hlutinn síðan settur í allsherjarnefnd þegar skotið var á kvöldverðarfundi í allsherjarnefnd og þingstörf héldu áfram klukkan átta og lauk á ellefta tímanum í gærkvöldi? Háttvirt allsherjarnefnd boðaði til nýs fundar klukkan níu í morgun sem stóð fram á ellefta tímann líka. Hvaða ráðrúm átti stjórnarandstaðan að hafa til að skila frambærilegu áliti minni hlutans, leita upplýsinga og gegna eftirlitshlutverki sínu og þeirri ríku lagaskyldu sem er lögð á minni hlutann? Hún verður enn þá ríkari fyrir það hvað meiri hlutinn er stór, þessi ofurmeirihluti. Þess frekar er ástæða til að leggja rækt við minni hlutann á þingi, stjórnarandstöðuna. Það verður ábyggilega kallað sérstaklega eftir því að minni hlutinn fái sérstaka aðstoð í nefndastarfi og annars staðar til að geta mætt vinnubrögðum sem þessum.

Í þriðja lagi vill 1. minni hluti árétta að endanleg verkefnaskipting á milli ráðuneyta er enn óljós með öllu og forsendur málsins allar í þoku eins og það ber að Alþingi. Framkvæmdarvaldið er hér að leggja til að Alþingi breyti starfsskipulagi sínu fyrir fram á grundvelli áforma ríkisstjórnar um breytta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Litlar sem engar upplýsingar fást um hvað felst í samkomulagi stjórnarflokkanna eða hvað á eftir að semja um og því óeðlilegt að Alþingi breyti skipulagi sínu án þess að efnisleg niðurstaða um færslu á viðfangsefnum milli ráðuneyta hafi verið útkljáð. Hið eina rétta er því að kjósa á sumarþingi í fastanefndir Alþingis samkvæmt gildandi þingskapalögum, eins og stjórnarandstaðan lagði til að gert yrði á þingsetningardegi, en taka svo til skoðunar breytingar á þingskapalögum og nefndatilhögun á Alþingi þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir um breytta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins.

Reyndar er það svo að í greinargerð með frumvarpi ríkisstjórnarinnar er afstaða minni hlutans rökstudd svo varla verður betur gert, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Skipan og heiti fastanefnda Alþingis hafa tekið mið af heitum ráðuneyta og skiptingu málaflokka milli þeirra og er í 1. mgr. 23. gr. þingskapa kveðið á um að vísa skuli frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.“

Síðar segir:

„Með þessu frumvarpi verður því samræmi milli heita ráðuneyta og fastanefnda þingsins og málaflokka.“

Með vinnubrögðum meiri hlutans er verið að breyta skipan fastanefnda Alþingis áður en ljóst er hver heiti ráðuneyta verða og skipting málaflokka milli þeirra og þannig farið þvert gegn greinargerð frumvarpsins og eðlilegum vinnubrögðum.

Ég vek líka athygli á því að minni hlutinn skipuleggur sig í nefndir eftir verksviðum nefnda, hvaða hv. þingmaður fer í hverja nefnd eftir því hvar sérfræðiþekking hans eða önnur þekking hans á sviði mannlífsins nýtist best. Slík skipulögð vinnubrögð eru auðvitað útilokuð með þessum hringlandahætti.

Í ljósi þess sem ég hef að framan sagt gerir 1. minni hluti eftirfarandi tillögu að rökstuddri dagskrá, hún er svohljóðandi:

„Í ljósi þess að frumvarpið er vanreifað og fékk enga skoðun í þingnefnd, ekki hefur verið leitað samstöðu um efni þess með hefðbundnum hætti þó þingskapalög eigi í hlut og áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á verkaskiptingu innan stjórnarráðsins eru enn mjög óljós samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir álitið ritar sá sem hér stendur og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Ég vil að endingu taka það fram, herra forseti, að nái þessi dagskrártillaga okkar ekki fram að ganga styðjum við breytingartillögu hæstv. forseta um að þingmönnum sé heimilt að gera grein fyrir atkvæði sínu.