134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:44]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða mjög mikilvægt mál og margt sem hv. þingmaður kom inn á í því samhengi. Hv. þingmanni var tíðrætt um þá svonefndu stóriðjustefnu fyrrverandi ríkisstjórnar sem Vinstri grænir hafa nú talað mjög mikið um og hún hefur rætt um mikil undirboð og hvað þessi stefna hefur haft í för með sér.

Nú er staðreyndin sú að á Austurlandi fyrir framkvæmdirnar sem þar áttu sér stað voru launatekjur Austfirðinga 89% af landsmeðaltali. Í dag eru þær á pari við landsmeðaltal. Á Norðurlandi eystra eru launatekjur 89% af landsmeðaltali rétt eins og var á Austfjörðum fyrir fjórum árum. Ég heyrði að hv. þingmaður var að inna ríkisstjórnina eftir stefnu sinni um það hvað hún vildi í áframhaldandi atvinnuuppbyggingu m.a. á Bakka við Húsavík, sem því miður liggur ekki fyrir í dag, og rétt eins og framsóknarmenn sögðu fyrir síðustu kosningar þá er það alveg ljóst að þeir styðja þá atvinnuuppbyggingu til þess að launakjör og skilyrði íbúanna á því svæði muni batna. Ég vil benda hv. þingmanni á það af því að ég held að hv. þingmaður hafi ansi oft nefnt Kárahnjúka í ræðu sinni og haft þar uppi stór orð, að það voru m.a. Vinstri grænir sem samþykktu þá uppbyggingu sem núna á sér stað á Hellisheiði. Ég vil líka meina að sú framkvæmd hafi haft einhver umhverfisáhrif í för með sér og að einhverjir erlendir starfsmenn hafi unnið að þeirri uppbyggingu. En hv. þingmaður, fulltrúi Vinstri grænna í þessari umræðu sem stóð að Hellisheiðarvirkjun kýs að nefna þá virkjun ekki einu orði. Það er hins vegar alveg ljóst að sá málflutningur sem hér fór fram áðan var afbakaður að því leyti að kjör Austfirðinga hafa batnað með þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað. Engin undirboð gagnvart Austfirðingum.