134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:51]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum um þetta frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku Búlgaríu og Rúmeníu á EES-svæðinu sem er um margt mjög mikilvægt mál. Það var svo sem auðvitað að umræðan um það skyldi snúast um meinta stóriðjustefnu jafnsnemma í umræðunni og raun ber vitni.

Það sem mér leikur forvitni á að vita er hvort hv. þingmaður sem hér tók síðast til máls styður frestun gildistöku ákvarðana um frjálsa för þessara nýju aðildarríkja eða ekki. Mér finnst það hafa verið fullkomlega óljóst í máli hennar hvort svo sé. Það er nú einu sinni þannig að hv. þingmaður hefur talað um að hér séu ýmis vandamál, talað um þrælahald og annað þess háttar sem hafi verið viðhaft hér á landi undanfarin ár, fyrst og fremst með þátttöku vinnuafls frá Evrópska efnahagssvæðinu, en í máli sínu hefur hún gert því skóna að ef við frestum gildistökunni geti það ýtt undir ýmsa fordóma gagnvart þessum nýju ríkjum. Þannig hefur hún bæði talað um að hér sé of mikil þensla á vinnumarkaðnum en að það megi ekki fresta gildistökunni, það geti ýtt undir fordóma, þetta sé hlutfallslega svo lítill hluti af vinnuafli Evrópska efnahagssvæðisins að það geti varla skipt máli, en í hinu orðinu talar hún um að hérna sé svo margt í félagslega umhverfinu sem þurfi að laga og bæta og það sé margt sem þurfi að færa til betri vegar áður en við verðum reiðubúin til að taka við þessum mikla fjölda.

Ég held að það væri ágætt fyrir okkur sem höfum hlýtt á mál hv. þingmanns að fá bara svar við þessari spurningu: Styður hún frestunina eða ekki, og með hvaða rökum?