134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[16:48]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti ræða hv. þingmanns nokkuð athyglisverð. Í henni var blandað saman mörgum óskyldum þáttum. Auðvitað er ljóst að velsæld í heimaríki fólks veldur því að það flyst síður brott í leit að vinnu. Það þekkjum við Íslendingar úr aldagamalli sögu okkar. Þegar á bjátar í íslensku efnahagslífi höfum við leitað annað.

Markmiðið með Evrópusamstarfinu er einmitt að skapa þær efnahagslegu forsendur að ríki sem lakast standa eigi kost á að búa borgurum sínum lífvænleg kjör. Það er grundvallarmarkmið. Sú aðgerð sem hér er um að ræða felur ekki í sér nýtingu einhvers öryggisfyrirvara, heldur fyrst og fremst samningsbundinn aðlögunartíma sem stjórnvöld hyggjast nýta til að búa í haginn fyrir móttöku fólks þannig að það sé hægt að gera með fullum sóma. Ég legg áherslu á það atriði.

Eftir stendur þetta: Jafnvel við þær aðstæður sem verið hafa á vinnumarkaði hér undanfarin ár hafa engar slíkar aðstæður komið upp sem hafa leyft okkur að grípa til þess öryggisfyrirvara sem er í EES-samningnum. Það er ekki þannig að við höfum með samningsskuldbindingum okkar innan hins Evrópska efnahagssvæðis einhverja sjálfvirka fínstillara til að stilla af heimildir fólks til að nýta sér samningsbundin réttindi hér á landi. Það sem við höfum er það tæki að taka vel á móti fólki og að sinna Evrópusamstarfi af stórhug og það eigum við að gera.