134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[16:52]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það frumvarp sem hér er lagt fram er lagt fram til þess að nýta samningsbundinn aðlögunartíma varðandi þessi tvö ríki. Það er ljóst að í síðasta lagi sjö árum eftir aðild þessara ríkja að Evrópusambandinu hafa borgarar þeirra full réttindi til að leita sér að vinnu hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu. Um það er samið við aðild þessara ríkja, alveg eins og samið var um það við aðild Póllands og fleiri ríkja í 10 ríkja hópnum 2004.

Með öðrum orðum er um að ræða tímabundnar aðlögunarheimildir fyrir ríki. Þær stafa náttúrlega af því að öll ríki vilja taka vel á móti þeim sem þeir vænta að komi og menn vilja líka skapa forsendur fyrir því að það sé efnahagsleg uppbygging í hinum nýju aðildarríkjum.

Það er ljóst að það eru engar efnislegar forsendur sem geta réttlætt að virkir öryggisfyrirvarar verði í EES-samningnum. Hér er einfaldlega um það að ræða að stjórnvöld nýti sér þetta ráðrúm sem er fullkomlega eðlilegt. Þetta er ráðrúm til tæplega tveggja ára, til 1. janúar 2009. Ég held satt að segja að það væri mjög óskynsamlegt að gera annað, í ljósi reynslunnar. Það má t.d. læra af reynslunni að það hefði verið betra ef við hefðum haft betra upplýsingaefni tiltækt á tungumálum þess fólks sem kemur til landsins.

Það er líka mikilvægt að verkalýðshreyfingin sé tilbúin. Það er hún núna. Hún vinnur af miklum metnaði í þessum málum og mun ríða mikið á að hún vinni þetta mál vel með samtökum atvinnulífsins. Það er út frá þeim sjónarhóli sem við nálgumst þetta mál. Við erum ekki að fara að skammta fólk inn til landsins.