134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:13]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessi svör. Þau voru þó heldur fátækleg, því miður. Hæstv. ráðherra gat ekki svarað fyrri fyrirspurn minni en ég beini því þá til hæstv. ráðherra að koma svörum til utanríkismálanefndar um afstöðu ráðuneytisins að því er það varðar þegar þetta frumvarp fer í vinnslu hjá nefndinni.

Að því er almannatryggingar varðar er það hárrétt hjá hæstv. ráðherra að útlendingar eiga að njóta þeirra frá löndum EES en til þess að svo sé þurfa þeir að hafa tilskilin tryggingaskjöl frá heimalandi sínu. Það hefur orðið verulegur misbrestur á því og þegar vandamál koma upp í slysum, umferðarslysum, vinnuslysum eða öðru, þá fást þessi skjöl ekki oft á tíðum og þessir einstaklingar eru rukkaðir um sjúkrahúskostnað sem skiptir hundruðum þúsunda og þar fram eftir götunum. Ég spyr aftur: Vill hæstv. utanríkisráðherra tryggja það að atvinnurekendum sé gert skylt fyrir ráðningu að þessi tryggingaskjöl frá heimalöndum umræddra útlendinga liggi fyrir áður en þeir taka til starfa?