134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

lög um fjárreiður stjórnmálasamtaka.

[13:33]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þingfundar ræða við hæstv. forsætisráðherra um fjárreiður stjórnmálaflokkanna og löggjöf nýsetta af hálfu Alþingis. Í 1. gr. þeirra laga segir svo um markmið og tilgang:

„Tilgangur laga þessara er að kveða á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.“

Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2007.

Í framhaldinu urðu stjórnmálaflokkarnir sammála um að takmarka auglýsingar við ákveðna upphæð í svokölluðum landsmálamiðlum. Andi þessara laga og þessa samkomulags var góður og markmiðið háleitt.

Nú gerðist það að DV, í eigu eins öflugasta fyrirtækis landsins, var gefið út í 100 þús. eintökum miðvikudaginn fyrir kosningar. DV-blöðin voru tvö talsins þann miðvikudag. Aukablaðið hét „Þitt blað – uppgjörið“ og var afgerandi í afstöðu sinni með og á móti flokkunum. Enn fremur gerðist það daginn fyrir kosningar að auglýsingar birtust í öllum dagblöðunum þar sem einn mesti áhrifamaður atvinnulífsins, bæði þekktur og vinsæll, gekk til liðs við og hvatti fólk til að kjósa ákveðinn stjórnmálaflokk þótt í sömu auglýsingu væri hvatning til að strika þingmann og sitjandi ráðherra burtu.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra og þess vegna forsvarsmenn annarra flokka: Hver er skoðun hæstv. ráðherra á aukablaði DV og sannarlegu inngripi í kosningabaráttuna? Ræddu forustumenn flokkanna um hættu á því að svona lagað gæti gerst? Verður nú í ljósi þessara atburða sem ég hef farið yfir að endurskoða lögin með það í huga að fyrirtækin geti ekki í krafti peninga komið í raun „hina leiðina“ til stuðnings við flokk eða þannig gengið gegn stjórnmálaflokki eða -flokkum og einstökum stjórnmálamönnum eins og Björn Bjarnason mátti sæta? Telur hæstv. forsætisráðherra að forustumenn stjórnmálaflokkanna eigi í ljósi þessara atburða (Forseti hringir.) sem ég hef hér lýst að yfirfara lögin og reglurnar? Mun hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir slíkri endurskoðun?