134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

verðbréfaviðskipti.

7. mál
[14:08]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þau frumvörp sem hér eru til umræðu voru unnin í tíð síðustu ríkisstjórnar og eru lögð fram af hæstv. viðskiptaráðherra óbreytt. Frumvörpin voru fyrst unnin undir forustu Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og síðan undir forustu Jóns Sigurðssonar, einnig fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem lagði þau fram undir lok síðasta kjörtímabils.

Með nýju frumvarpi er verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins, nr. 39/2004, svokallaða MiFID-tilskipun en hún miðar að því að auka eftirlit með fjármálafyrirtækjum, efla neytendavernd og skapa skilvirkari fjármálamarkað. Frumvörpin munu því styrkja stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja og auka möguleika þeirra til enn frekari útrásar innan Evrópusambandsins.

Það er engum blöðum um það að fletta að íslenskur fjármálamarkaður hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og skilar nú inn í þjóðarbúið tugum milljarða sem aftur nýtast í að efla og styrkja velferðarkerfi okkar. Þegar þróunin verður eins ör og raun ber vitni skiptir öllu máli að íslenskir og erlendir neytendur hafi traust á íslenska fjármálamarkaðnum.

Ég fagna því að nýr hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, skuli hraða þessu máli. Frumvarpið mun án efa styrkja samkeppnisstöðu íslensks fjármálamarkaðar á erlendum vettvangi auk þess að skapa honum nauðsynlegt traust bæði heima og erlendis. Þá mun frumvarpið án efa styrkja stöðu Fjármálaeftirlitsins og því fagna ekki bara íslenskir neytendur heldur líka fjármálastofnanir landsins.