134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:14]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og áður þegar maður á viðræður við hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar þá fór hæstv. iðnaðarráðherra í að tala um að ég væri svo gremjuþrunginn að það væri ekki hægt að tala við mig út af því. Nú stendur hv. þingmaður Atli Gíslason hér með pólitískt sykurfall. Er þetta nú boðleg rökræða? Auðvitað ekki. En það er allt í lagi og boðlegt að sýna tilfinningar, hafa tilfinningar og nota tilfinningaleg rök í bland við málefnaleg rök sem ég færi fram.

Ég ítreka að það að minnka kynbundinn launamun um helming dugir mér ekki (Iðnrh.: Það dugði þér úti í Ráðhúsi.) og ég er stoltur af því. Það dugði mér heldur ekki úti í Ráðhúsi. Ég met þau verk sem þar voru unnin. Ég met þau verk, þar var þó farið í það.

Ég mun fylgja þessu verki eftir í vetur á þinginu. Ég mun leggja fram tillögur um stjórnvaldsúrræði fyrir ríkisstjórnina til að taka á kynbundnum launamun. Ég mun líka leggja fram tillögur um kynbundið ofbeldi. Ég skora á hæstv. ráðherra að verða samferða mér í þeim leiðangri. Ég skora á hann til þess.

Reykjavíkurborg þarf líka að gera miklu betur. Það er mér fyllilega ljóst. Væntanlega verður það gert með þeim stjórnvaldstækjum sem ég hyggst leggja Reykjavíkurborg í hendurnar ef frumvörp okkar um þau mál í vetur ná fram að ganga.