134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:45]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Ég er komin, hæstv. forseti, til að fullvissa hæstv. iðnaðarráðherra um að í fyrsta lagi mun ekki standa á okkur þingmönnum Vinstri grænna að koma til liðs til að breyta kjörum þeirra hópa sem við tölum hér um.

Ég leyfði mér hins vegar, virðulegi forseti, að gera smáathugasemd við fas hæstv. ráðherrans sem notaði orðbragð sem mér þótti einfaldlega ekki við hæfi. Ég taldi ekki að ræða mín eða annarra þingmanna hefði verið þess eðlis að það hefði þurft að kalla hana það „að rífa sig niður í rassgat“. (Iðnrh.: Ég sagði það ekki. Rífa sig niður í rass.) Nákvæmlega orðin, sem féllu athugasemdalaust af hálfu forseta. Það er orðbragð sem ég hef ekki heyrt áður í þessum sal. Ég leyfði mér bara að vekja athygli á að það hæfði kannski ekki því embætti sem hæstv. iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) Össur Skarphéðinsson nú skipar.