134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:51]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sannarlega er það hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita ríkisstjórninni aðhald og það munum við gera.

Hvað varðar kjarabætur þá eiga þær samkvæmt orðum hæstv. ráðherra að fara eftir efnahagsástandinu hverju sinni. Það er alveg ljóst að það eru erfiðir tímar fram undan í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þá spyr ég: Hvað á að sitja fyrir, hver eru forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar?

Hæstv. iðnaðarráðherra las upp og kynnti að vissulega væri margt af því sem er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við viljum fylgja því eftir, við viljum setja þessi verkefni í forgang. En í erfiðu efnahagsástandi, hvað mun þá þessi ríkisstjórn setja sem forgangsverkefni? Það skiptir máli.

Verður það forgangsverkefni að bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja? Verður það forgangsverkefni að bæta kjör umönnunarstétta til þess að koma hér á eðlilegri heilbrigðisþjónustu? Eða verður fordæmið, sem við höfum núna, um kjarabætur til (Forseti hringir.) seðlabankastjórans um 200 þús. kr. á mánuði, verður það fordæmi sem við getum treyst á að gangi yfir línuna til annarra?