134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannfærður um að VG og stjórnarandstaðan munu reyna að leggja sig fram um að halda uppi málefnalegri stjórnarandstöðu. Hv. þingmaður er t.d. þekkt fyrir það. Hún hefur aldrei gert sérstakar athugasemdir við fas mitt og t.d. látið sér lynda alla mína veikleika og ókosti í þeim efnum.

Hv. þingmaður talar eðlilega um það og veltir því fyrir sér: Hvernig vindur þessum loforðum fram í ljósi þess, eins og hún segir, að hér sé erfitt efnahagsástand fram undan?

Ég er ósammála forsendunni. Það er hugsanlegt að hér verði ekki jafnrífandi gangur og er núna. Það kann að taka svolítinn tíma. Allar spár sem settar hafa verið fram um efnahagsþróun benda hins vegar til þess að síðan siglum við aftur upp úr lægð. Það er hugsanlegt að þau vátíðindi sem hafa borist úr hafinu af fiskveiðum kunni að þrengja haginn um skeið. En ég er sannfærður um að staðan verði þannig að það mun takast að ná því fram (Forseti hringir.) sem við höfum verið að ræða.

VG getur ekki annað en fagnað. (Forseti hringir.) Tvo þriðju af stefnu þeirra í þessum málum er að finna hérna. Hvað eru menn svo að koma hingað og rífast og kvarta og kveina? (Forseti hringir.) Það er ekki málefnaleg stjórnarandstaða.

(Forseti (MS): Forseti biður hæstv. ráðherra að virða tímamörk.)