134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt hér fram. Vil ég í upphafi máls míns óska hæstv. ráðherra góðs gengis í sínum mikilvægu störfum. Það er ljóst samkvæmt því plaggi sem hér er lagt fram að markmiðin eru háleit.

Í rauninni hefur sú nýja ríkisstjórn sem hefur tekið við völdum farið ansi greitt af stað í mjög stórum málaflokkum og lofað mjög miklum útgjöldum til þeirra sem eru þó reyndar óljósir eins og fram hefur komið. Við fáum því miður ekki miklar upplýsingar um hvað þessi loforðapakki allur kostar.

Á sama tíma og núverandi ríkisstjórn leggur fram mjög mikil loforð um mjög mikil útgjöld eru blikur á lofti í efnahagslífi þjóðarinnar, þriðjungssamdráttur í þorski sem mun stórskerða útflutningstekjur þjóðarinnar, undirliggjandi verðbólga og óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi. Það er því mikil ábyrgð sem fylgir því að leggja fram óútfyllta tékka sem skapar óvissu á markaðnum um það hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér í þessum málaflokkum. Það er því eðlileg krafa okkar þingmanna að við fáum upplýsingar um það hvert innihald þessa pakka sé. Er það virkilega svo að menn hafi ekki gert sér neinar hugmyndir um hvað þetta muni allt saman kosta?

Á dögunum var rætt um málefni lífeyrisþega og svipað frumvarp var þá lagt fram í þinginu og við vitum í raun og veru ekki um hversu miklar upphæðir er að ræða. Það hlýtur því að vera krafa okkar á Alþingi að við fáum einhverjar upplýsingar um það hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér í þessum málaflokki, hversu miklum fjármunum á að verja til þessara mikilvægu verkefna.

Nú tek ég undir það með hæstv. ráðherra og öllum þeim sem hér hafa talað að hér er um mjög mörg mikilvæg málefni að ræða. Það þarf samt að forgangsraða þeim, það þarf að forgangsraða út kjörtímabilið og það er miður að það skuli vera svo mikil óvissa sem raun ber vitni um það hversu mikil útgjöld verða til að mynda á árinu sem nú er að líða eða á næsta fjárlagaári. Það er mikill vandi sem bíður fjárlaganefndar við að fara yfir þessi mál. Ríkisstjórnin verður að njóta trausts á markaðnum og mér er til efs í ljósi framlagðra frumvarpa og þingsályktunartillagna að ríkisstjórnin sé að vinna sér mikið traust á þeim vettvangi, því miður.

Það hefur komið í ljós í umræðunum að það er ekki samstaða innan stjórnarflokkanna um þetta. Hálfum mánuði eftir að núverandi ríkisstjórn var mynduð eru stjórnarliðar komnir í hár saman í umræðum á Alþingi. Er það kannski þannig, hæstv. forseti, að traust milli ríkisstjórnarflokkanna sé ekki meira en svo að leggja þurfi fram þingsályktunartillögu á sumarþingi til að fá stuðning stjórnarandstöðunnar til að kosningaloforð Samfylkingarinnar nái fram að ganga? Stendur núverandi ríkisstjórn virkilega svo veikum fótum að þessi stóri meiri hluti þurfi tilstyrk stjórnarandstöðunnar á hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar? Ja, þetta lofar ekki góðu, hæstv. forseti, um framhaldið. Það eru mörg svör sem við þurfum að fá hér og við í félags- og tryggingamálanefnd munum að sjálfsögðu fara ítarlega yfir þetta mál.

Í aðdraganda síðustu kosninga var mikið rætt um jöfnun á námskostnaði fyrir framhaldsskólanemendur sem þurfa að sækja nám fjarri heimahögum sínum. Fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna lofuðu bót og betrun hvað það varðar. Hér í þessu myndarlega plaggi þar sem kveðið er á um mjög mörg brýn mál er ekkert tekið á jöfnun námskostnaðar. Það er brýnt að hækka jöfnun á námskostnaði fyrir framhaldsskólanemendur á landsbyggðinni og það er mjög dýrt fyrir fjölskyldur á landsbyggðinni að senda börn sín fjarri heimahögum til þess að þau geti notið þeirra sjálfsögðu réttinda að stunda nám á framhaldsskólastigi. Það er ekkert kveðið á um það í þessari áætlun. (Félmrh.: Eigum við að bæta því við?)

Hæstv. ráðherra kastar því hér fram í þingsalnum hvort það eigi að bæta því inn í þessa aðgerðaáætlun. Já. (Gripið fram í: Sem þú ert að gagnrýna …) Að sjálfsögðu á að gera það. Það sýnir í raun og veru hversu lítill tími hefur unnist til að vinna að þessari aðgerðaáætlun þegar svona veigamikið atriði eins og jöfnun á námskostnaði fyrir framhaldsskólanemendur er ekki að finna í þessu plaggi. Hæstv. ráðherra gagnrýnir að ég tali um mikinn kostnað í þessu samhengi. Ég geri mér grein fyrir því að þessir hlutir kosta. Það sem ég er að gagnrýna í þessu er að ekki liggur fyrir í hvaða röð eigi að framkvæma fyrirheitin. Það eru engin skilaboð út í efnahagslífið um hvað ríkisstjórnin ætli sér í þessum efnum, í viðamiklum málaflokkum sem útheimta milljarða króna.

Svo að það fari ekki á milli mála styð ég að sjálfsögðu þann anda sem ríkir í þessari þingsályktunartillögu. Það sem ég gagnrýni er óvissan, bæði í málefnum barna og ungmenna og í málefnum lífeyrisþega sem nú er uppi um það í hvaða röð þessi fyrirheit verða framkvæmd og hversu miklir fjármunir muni renna til þessara verkefna á þessu ári, á næsta ári og út kjörtímabilið. Við eigum eftir að móta langtímaáætlun í ríkisfjármálum og það er mjög mikilvægt að hlutirnir liggi fyrir því að hér er um mjög mikla fjármuni að ræða.

Hæstv. forseti. Mörgum spurningum er ósvarað í þessu. Eitt er ljóst, sveitarfélögunum er ætlað stórt hlutverk í þessari þingsályktunartillögu enda eiga sveitarfélögin að sinna nærþjónustu. Nú þekkjum við að sveitarfélögin víðs vegar um landið eru missett og misvel undir það búin að takast á hendur þær auknu byrðar sem felast í tillögunni. Það þarf samhliða þessu að gera skurk í því að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga þannig að öll sveitarfélög geti tekið þátt í því að veita börnum sínum þau sjálfsögðu réttindi og þjónustu sem felast í þessari þingsályktunartillögu.

Hæstv. forseti. Á þessum átta mínútum sem ég hef hér hefur mér ekki gefist ráðrúm til að fara yfir allt málið. Mörgum spurningum er ósvarað, margt er óunnið í þessum efnum en því miður hefur það einungis komið í ljós í (Forseti hringir.) þessari umræðu hér að traustið í þessum málaflokki á milli stjórnarflokkanna er því miður takmarkað.