134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:14]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Ég er nú búinn að hafa vikutíma á Alþingi til að undirbúa mig undir að fara hér í umræðu og er feginn að sjá hve margir eru mættir í þetta fyrsta skipti sem ég stíg í púltið. Ég óska frú forseta einnig til hamingju með það að stýra hér þingfundi í fyrsta sinn. En nóg um það.

Við ræðum í dag mjög metnaðarfulla þingsályktunartillögu. Í gær var rætt stjórnarfrumvarp um almannatryggingar og málefni aldraða og eru því á dagskrá á upphafsdögum þingsins tvö mál þar sem reist eru flögg, annars vegar í málefnum barna og ungmenna og hins vegar í málefnum aldraðra.

Vissulega á eftir að leggja fram mörg önnur mál á komandi dögum og mánuðum í málefnum aldraðra. Hér er hins vegar hæstv. félagsmálaráðherra komin með þingsályktunartillögu í nokkrum köflum um málefni barna og ungmenna sem hér hefur verið farið ítarlega yfir.

Ég vil segja fyrir mitt leyti að umrædd þingsályktunartillaga fellur mjög að þeim markmiðum sem Samfylkingin fór fram með í kosningabaráttunni undir yfirskriftinni Unga Ísland líkt og hv. 2. þm. Norðvest., Guðbjartur Hannesson, nefndi áðan. Hér er verið að draga fram ákveðin atriði sem við höfum líkt og fjölmargir aðrir hv. þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum, komið inn á á umliðnum mánuðum og árum. Ég fann ekki fyrir því í kosningabaráttunni í aðdraganda kosninganna að það væri í sjálfu sér neinn ágreiningur um mörg þeirra mála sem hér eru nefnd og hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt upp með.

Ég vil sérstaklega benda á að í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt verði á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Einkum verði litið til þess hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, til dæmis vegna veikinda þeirra eða fötlunar.“

Í heimsóknum mínum í leikskóla sveitarfélaganna á umliðnum vikum kom berlega í ljós hvað það er orðin gríðarleg spenna í samfélaginu gagnvart því að við séum úti á vinnumarkaðnum. Ég held að allir frambjóðendur sem heyrðu slíkar sögur inni á leikskólunum, frá leikskólakennurunum og starfsfólki leikskólanna, skynji að við þurfum örlítið að snúa við blaðinu í þeim efnum sem við höfum verið að horfa upp á. Krafan er orðin þannig að verið er að óska eftir því að börn séu á leikskólum í allt að 10 tíma og helst 12 mánuði á ári. Þetta segir sína sögu um það hve mikilvægt er að ríkisvaldið, sveitarfélögin og aðilar vinnumarkaðarins fari í samráð sem byggi á því sem hér er lýst.

Ég vil að lokum rifja upp í kjölfar umræðu sem hv. 8. þm. Norðvest., Einar Oddur Kristjánsson, hóf hér um að hér væri óvarlega farið. Ég verð að segja að sú ábyrgð og festa sem hæstv. ríkisstjórn sýnir hverju sinni tengist í sjálfu sér þessu verkefni jafn vel og öðrum sem hér hafa verið borin fram. Ég man eftir því að þegar ég var kjörinn sveitarstjórnarmaður í Hafnarfirði árið 2002 að eitt af fyrstu verkum okkar þar, tveimur vikum eftir kosningar, var að innleiða svokölluð barnakort eða niðurgreiðslur til barna og ungmenna á þátttökugjöldum í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Það eru fimm ár síðan. Við vildum gera það út af því að við fundum fyrir því á árunum þar á undan að efnahagslegar og félagslegar aðstæður hjá mjög mörgum komu í veg fyrir það að börn eða ungmenni gætu tekið þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þess vegna reistum við það flagg sem fjölmörg sveitarfélög hafa síðan fylgt eftir. Deilt var á það þá að kostnaðurinn væri mikill í þessum efnum. Hann var þá um 30–40 millj. á ársgrundvelli. Hins vegar var það staðföst trú okkar að það að fjölga þátttakendum í íþrótta- og æskulýðsstarfi kæmi til baka í betri forvarnaaðgerðum og betri lýðheilsu almennt. Það hefur sýnt sig í öllum mælingum og rannsóknum sem viðhafðar hafa verið síðan að við erum að fá mun betri niðurstöður en á árunum þar á undan.

Nýlega tókum við upp svokölluð öldrunarkort fyrir 67 ára og eldri í Hafnarfirði. Þar á nákvæmlega sama við. Þar er verið að tryggja að aldraðir íbúar bæjarins hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu sem bæjarfélagið svo niðurgreiðir eða tekur að fullu þátt í, því að við viljum efla lýðheilsu aldraðra í sveitarfélaginu. Auðvitað kosta þessir hlutir fjármuni en ég álít að þessum fjármunum sé vel varið. Ég vil líka á sama hátt meina að þeim fjármunum sem munu verða hér til umfjöllunar þegar umrædd lagafrumvörp verða lögð fram, eða þegar viðkomandi ráðuneyti hafa komið fram með einstök verkefni sem verða þá tekin hér til umfjöllunar á síðari stigum, verði vel varið í þessi verkefni því að hér er fyrst og fremst um að ræða aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Við eigum öll að geta tekið undir það, hv. þingmenn, að fara fram með slíkt verkefni. Ég óska hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með þessa þingsályktunartillögu og vona að þingheimur allur geti sameinast um hana.