134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

Íbúðalánasjóður.

[13:54]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég held að allir séu í grunninn sammála því að það er mjög mikilvægt að tryggja stöðugt framboð íbúðalána. Vissulega hefur Íbúðalánasjóður stóru hlutverki að gegna í því, en það hafa bankarnir líka. Þessir aðilar starfa að mörgu leyti, og mestu leyti, á sama markaði og þess vegna vilja allir að þeir starfi samkvæmt sömu grunnreglum. Það er akkúrat að þessu sem áhyggjur ESA snúa. Þær snúa að því að hér starfar Íbúðalánasjóður samkvæmt öðrum reglum en bankarnir á sama markaði. Á þessu verður að taka og einmitt Framsóknarflokkurinn byrjaði að taka á því í tíð síðustu ríkisstjórnar. Síðan geta menn sett sérstakan lagaramma um það sem snýr að hinum félagslegu eða pólitísku markmiðum varðandi íbúðakaup, markmiðum sem snúa að kaupum á fyrstu íbúð, að kaupum þeirra sem hafa litlar tekjur eða eiga litlar eignir svo að ég tali ekki um það að þegar fólk úti á landi kaupir íbúð er það rétt sem hér hefur komið fram að Íbúðalánasjóður hefur fyrst og fremst lánað til þeirra kaupa. Það breytir því þó ekki að við þurfum að endurskoða ýmsa þætti sem varða Íbúðalánasjóðinn. Hvar sjóðurinn er staðsettur sé ég ekki að skipti máli. Það hljóta að vera hin pólitísku markmið sem skipta máli og það er alveg skýrt að pólitísk markmið hafa komið fram í ræðum bæði hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra.

Ég vil þá að lokum segja að ég hef engar áhyggjur af því (Forseti hringir.) að þessi pólitísku markmið nái ekki fram að ganga þó að Íbúðalánasjóður verði staðsettur í fjármálaráðuneytinu.