134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

Íbúðalánasjóður.

[13:59]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þessi umræða staðfestir það að hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur látið plata sig. Hún hefur gengið inn á það að Íbúðalánasjóður fari yfir til fjármálaráðuneytisins og hér liggja fyrir átök um það mál á milli flokkanna.

Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir hennar orð, hennar ummæli. Þau sýndu að enn er hæstv. félagsmálaráðherrann gamla góða Jóhanna. Ég treysti henni til þess að halda fast í feldinn og gefa sig hvergi í þeim átökum sem fram undan eru.

Hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen sem ég hef miklar mætur á kom hér upp viðkvæmur og sár af því að hann hélt að hann hefði bráð sína í hendi sér. Hann er í hlutverki úlfsins og var farinn að hlakka til að éta Rauðhettu litlu.

Nú segi ég við Samfylkinguna: Sýnið að þið séuð félagshyggjumenn. Snúið ofan af einræði hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem samdi um það við hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde að fjarlægja þennan sjóð. Ég hef ekkert nema gott um hæstv. fjármálaráðherra að segja en ég get þó sagt ykkur frá því að þau 16 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í fjármálaráðuneytinu hefur ekkert félagslegt þrifist þar. Það er allt selt. Þess vegna bið ég hæstv. félagsmálaráðherra sem ég treysti vel í þessum efnum að halda fast í feldinn, gefa ekkert eftir. Við framsóknarmenn munum standa með hæstv. félagsmálaráðherra í þessum átökum. Við þekkjum þau úr eldhúsinu heima sem við vorum staddir í. Við tókumst á um þessi mál og vitum (Forseti hringir.) hvert atvinnulífið, bankakerfið og stór hluti sjálfstæðismanna vill fara með þennan sjóð. Við skulum standa vörð um (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóð fólksins.