134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:13]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. viðskiptaráðherra skuli kveðja sér hljóðs í þessari umræðu. Í raun og veru er það mikið áhyggjuefni að við sjáum ekki fleiri ráðherra en raun ber vitni þar sem þessi þingsályktunartillaga snertir fjölmörg ráðuneyti og ef viðkomandi ráðherrar mundu bera einhverja virðingu fyrir því efni sem hér er rætt um ættu þeir að sjálfsögðu að vera í þingsal og taka þátt í þeirri efnislegu umfjöllun sem hér fer fram.

Af því að hæstv. ráðherra varð mikið tíðrætt um menntamál sem hann hefur verið mikill áhugamaður um í gegnum tíðina er það merkilegt að í þessari áætlun sem telur hátt í 40 liði, 40 aðgerðir, er ekkert minnst á það að jafna eigi námskostnað framhaldsskólanema sem búa á landsbyggðinni og trúlega í kjördæmi hæstv. ráðherra. Ég veit ekki betur en að flestallir frambjóðendur, hvar í flokki sem þeir stóðu, hafi haft uppi stór orð um hvað það væri mikilvægt að koma til móts við framhaldsskólanemendur og hækka þennan jöfnunarstyrk. Nú bregður hins vegar svo við að það er ekki stafkrókur um það í þessari þingsályktunartillögu þannig að ég held að margt sé óunnið í þessum málum og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki þörf á því að í þeirri vinnu sem er fram undan í þinginu komum við í það minnsta til móts við framhaldsskólanemendur og hækkum jöfnunarstyrkinn hvað þetta varðar. Það er mjög brýnt mál og orð skulu standa hvað þetta varðar.