134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:17]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og segi enn og aftur að hann er maður að meiri að taka þátt í þessari umræðu þar sem þingsályktunartillagan heyrir ekki einu sinni undir viðskiptaráðuneytið. Ég vek athygli á því að hér vantar fjölmarga ráðherra sem eiga að hrinda þessari þingsályktunartillögu í framkvæmd og það væri æskilegt að viðkomandi ráðherrar væru við þessa umræðu.

Að öðru. Ég nefndi í fyrri ræðu minni að mér finnst núverandi ríkisstjórn fara vasklega af stað í miklum útgjöldum og fyrirheitum um þau, í fyrsta lagi gagnvart lífeyristryggingum og núna gagnvart þeirri þingsályktunartillögu sem hér er um að ræða. Nú er staðan þannig að það er mikil undirliggjandi verðbólga í samfélaginu og óróleiki í íslensku efnahagslífi sem við þurfum að koma böndum á. Ég hef sagt að við þurfum að fá svör við því hvað þessi þingmál sem ríkisstjórnin leggur hér fram muni kosta og í hvaða áföngum ákvarðanir verða teknar. Hér er verið að tala um mjög umfangsmikil og mikilvæg mál, sem ég styð, en það skiptir máli og hlýtur að skipta máli fyrir markaðinn að vita hvort það eigi að setja fimm, sex, sjö milljarða strax á þessu ári í þessa málaflokka eða hvort það eigi að gera það eftir tvö ár eða þrjú ár. Það eru mikilvæg skilaboð sem markaðurinn þarf að fá og ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann deili því ekki með mér að við hefðum þurft að fá upplýsingar um það í hvaða röð eigi að uppfylla þau fyrirheit sem hér er kveðið á um, hversu mikla fjármuni eigi að setja í þessa áætlun á fjáraukalögum í ár, á fjárlögum næsta árs, eftir þrjú ár o.s.frv. Þetta er það sem markaðurinn þarf á að halda, það þarf að ríkja fullkomið traust á milli markaðarins og þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr. Þess vegna verðum við (Forseti hringir.) að fá upplýsingar um það í hvaða röð hlutirnir verða gerðir hér.