134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:43]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég neita því ekki að það hefði verið ánægjulegra að flytja aðra ræðu sína í dag og hafa hæstv. ráðherra sem eiga að fjalla um málið í salnum því að ýmsar spurningar eru knýjandi í þessari umræðu.

Í fyrri ræðu minni ræddi ég um að sú þingsályktunartillaga sem hér er um að ræða hefði í för með sér mjög háleit markmið, góð markmið sem við hljótum öll að styðja í flestum aðalatriðum. En eins og ég hef rakið fela aðgerðirnar í sér mjög mikil útgjöld ríkissjóðs. Við kláruðum í gær umræðu um lífeyrismál sem fela einnig í sér mjög mikil útgjöld hjá ríkissjóði. Það er eðlilegt að við vörpum fram spurningum: Í hvaða áföngum ætlar hæstv. ríkisstjórn að taka þessa þingsályktunartillögu í gildi?

Sagt er að sú tillaga er hér er til umræðu kosti marga milljarða. Er óeðlilegt að við spyrjum hvort það þurfi fjóra eða fimm milljarða á fjáraukalögum þessa árs til að hrinda ákveðnum tillögum í framkvæmd, eða 500 eða 600 milljónir? Það er mikilvægt í ljósi þeirrar stöðu í efnahagsmálum sem nú er uppi, undirliggjandi verðbólgu og óstöðugleika á markaði, að það komi skýr svör frá ríkisstjórninni hvað þetta varðar.

Ég bið hæstv. félagsmálaráðherra að leggja við hlustir. Hæstv. ráðherra hefur ekki enn svarað því hvernig hún hefur hugsað sér að taka þessa áætlun í gildi. Hæstv. ráðherrar, sem eru því miður fæstir í salnum, hljóta að hafa gert sér hugmyndir og rætt um í hvaða áföngum eigi að taka þessa þingsályktunartillögu í gildi. Hér er um svo stórt mál að ræða að þeir fimm ráðherrar sem um þessi málefni eiga að fjalla hljóta að hafa farið yfir það sín á milli hvað eigi að fara í á þessu ári, í fjárlagagerð fyrir næsta ár o.s.frv. Við verðum að fá svör við því í þessari umræðu.

Hæstv. forseti. Síðan hefur einfaldlega komið fram að það er ágreiningur innan stjórnarflokkanna um málið. Það er rangt sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði áðan, að fullur stuðningur væri við málið innan þingflokka stjórnarflokkanna. Ég hélt að hv. þingmaður hefði setið við alla umræðuna en vera kann að hv. þingmaður hafi vikið sér fram á meðan hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt sitt mál og boðaði andstöðu sína við frumvarpið. Er nema von að maður komi upp um fundarstjórn forseta og veki athygli á því að enginn af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins er viðstaddur þessa umræðu? Það hlýtur að segja okkur eitthvað um að ekki sé full eining um þetta mál.

Nú sé ég að hæstv. fjármálaráðherra er kominn í sitt sæti. Ég fagna því og vil varpa fram þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að þessari þingsályktunartillögu verði framfylgt. Eiga að koma 5–6 milljarðar kr. inn í þennan málaflokk á fjáraukalögum núna í ár eða 1 milljarður? Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða. Við verðum að fá upplýsingar um hvort og hvernig ríkisstjórnin ætlar að framfylgja þessu. Það er mikilvægt.

Einn hv. þingmaður benti í umræðunni áðan á að kveðið væri á um að að ríkisstjórnin ætli að lengja fæðingarorlofið úr 9 mánuðum upp í 12. En á að setja meiri fjármuni í fæðingarorlofskerfið eða ekki? Á að lækka þá greiðslurnar sem því nemur þannig að það verði óbreytt krónutala? Það segir ekkert um það í þessari þingsályktunartillögu. Ég sé að hæstv. félagsmálaráðherra hristir hausinn en við óskum eftir því að fá einhver svör við því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætli að framfylgja þessum ágætu málum. Það er mjög mikilvægt fyrir markaðinn að fá að vita hversu greitt ríkisstjórnin ætlar sér í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem mælti fyrir þessari þingsályktunartillögu og inna eftir þeirri skoðun hvort hún sé því fylgjandi, eins og bent hefur verið á í þessari umræðu, að tekið verði sérstaklega á því í nefndarstarfi að komið verði til móts við framhaldsskólanemendur um hækkun á jöfnunarstyrk vegna framhaldsskólanáms. Það er atriði sem bara gleymdist í þessari vinnu enda hefur þetta plagg bara verið unnið á örfáum dögum. Við hljótum að velta því fyrir okkur: Eru ekki mörg önnur atriði sem eru mjög mikilvæg og hafa gleymst, stórmál eins og jöfnun á námskostnaði fyrir framhaldsskólanemendur, m.a. á landsbyggðinni? Það er stórmál og það er undarlegt að ekki sé stafkrókur um það hér.

Ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort hún telji að rétt væri að bæta inn grein hvað það varðar að við eigum að huga að því á kjörtímabilinu að bæta kjör námsmanna hvað þetta varðar. Eins vil ég spyrja hv. formann nefndarinnar, Guðbjart Hannesson, hvort hann, sem formaður félags- og tryggingamálanefndar, sé á því að við tökum sérstaklega tillit til jöfnunar á námskostnaði fyrir framhaldsskólanemendur í því nefndarstarfi sem fram undan er. Þeirrar nefndar sem hv. þingmaður veitir forstöðu bíður ákveðið verkefni og því er mjög mikilvægt að fá svör við því hvort hæstv. ráðherra og hv. formaður nefndarinnar telji að það eigi að koma til móta við framhaldsskólanemendur í landinu.

Af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram er hins vegar ljóst að ekki er mikill áhugi á því af hálfu Sjálfstæðisflokksins að koma þessu máli áfram. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa haldið margar ræður en aftur á móti hafa komið önnur skilaboð úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar. Það lofar ekki beint góðu, hæstv. forseti, um áframhaldandi samstarf þessara flokka þegar nú, tveimur vikum eftir að þessir flokkar eru byrjaðir saman, ef svo má segja, skuli allt vera komið í háaloft. Það er ljóst að það þarf að vinna vel í þessum málum. Við þurfum skýrari svör hvað þessi mál áhrærir. Það er ólíðandi ef við ætlum að klára fyrri umræðu án þess að fá ákveðin svör um hvað ráðherrarnir ætli sér í þessum málum. Það er ljóst að hér er ekki beinlínis um áætlun að ræða heldur aðeins fögur orð á blaði. Síðar mun koma í ljós hvað menn ætla að gera.

Ég hef þá trú að menn séu ekkert búnir að ákveða hvað þeir ætla sér að innleiða í þessu, eða á hvaða tímapunkti. Því miður. Þetta er vanreifað mál, það vantar m.a. mjög þýðingarmikið mál inn í þessa þingsályktunartillögu og þetta mál þarf að vinna miklu betur, hæstv. forseti.