134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:59]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er gamall lífeðlisfræðingur og ég veit að bæði ást og ástarsorg skapa ákveðið lífeðlisfræðilegt ástand. Í ástinni er maður glaður og reifur, í ástarsorginni er maður dapur og hnugginn.

Hv. þingmaður minnir mig pínulítið á fermingarstrák sem er nýbúið að segja upp. Hann talar um að nú séu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin farin að vera saman. Maður sér speglast eftirsjána eftir gömlu kærustunni. Kannski veldur það því að hv. þingmaður, sem endranær er málefnalegur og rökvís í málflutningi sínum, talar þannig þar að þar rekur sig hvað á annars horn.

Hv. þingmaður kemur hér upp og segir ýmislegt vanta í þessa ágætu tillögu sem við erum hér að ræða. Á hinn vænginn segir hann að þetta sé svo umsvifamikil tillaga að það séu ekki til peningar fyrir henni. Hv. þingmaður er síðustu þrjá mánuði búinn að tala um það hvað Framsóknarflokkurinn skili góðu búi. Nú kemur hv. þingmaður í sínu dapurlega ástandi pólitískrar ástarsorgar og segir að það sé ekkert nema svart, bölsýnin hefur yfirtekið hann. Hann dregur í efa að rými sé til að fara í þessar aðgerðir. Hvað er að marka mann sem talar svona, sem skiptir um skoðun — eins og formaður Framsóknarflokksins hér í dag — á einni viku?

Ég virði það við hv. þingmann að hann á erfitt, í því ástandi sem hann er núna, með að gera upp við sig hvaða skoðun hann hefur á málinu. Hann var bæði með málinu en líka á móti málinu. Kannski er Framsóknarflokkurinn að hrökkva aftur í sitt hefðbundna ástand: Já, já og nei, nei, kannski og.

Frú forseti. Hv. þingmaður er sennilega búinn að vera of lengi í meiri hluta. Hann er orðinn vanur þeim stjórntækjum sem Framsóknarflokkurinn hafði hér áður fyrri sem fólst í því að sýna þinginu aldrei neina hluti fyrr en á síðustu stundu. Það var þess vegna sem hann tapaði svo mörgum málum hér í þinginu.

Nú kemur hv. þingmaður og beinlínis óskast undan því að fjalla um málið. Það er ekki nógu vel reifað, segir hv. þingmaður. (Forseti hringir.) Ja, öðruvísi mér áður brá hjá þessum ágæta hv. þingmanni.