134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ágætisverklag að hafa í gildi framkvæmdaáætlun eða aðgerðaáætlun um málefni barna og ungmenna, svona „handlingsplan“ eins og alsiða er annars staðar á Norðurlöndunum. Það hefði eiginlega verið skemmtilegra ef hæstv. ráðherra hefði haft þetta fimm ára áætlun en ekki fjögurra ára, sögulega séð.

Það vekur engu að síður athygli þrátt fyrir góð markmið, fögur fyrirheit og áform í þessari tillögu hversu margt er óútfært og að því er virðist óútkljáð milli stjórnarflokkanna í þessum efnum. Það er vissulega svo að suma þætti málsins er erfitt að kostnaðarmeta en aðra ekki. Það er ekkert vandamál að reikna út hvað það kostar að hækka barnabætur um tiltekna upphæð, hvað það kostar að lengja fæðingarorlof, það er ekkert vandamál að reikna það út hvað það kostar að gera leikskólann gjaldfrjálsan. Það er vitað að tekjurnar sem sveitarfélögin fá í gegnum gjaldtöku í leikskólanum eru 2,5–3 milljarðar kr. Við höfum barist fyrir því og teldum það gríðarlega stórt skref í átt til barnvænna samfélags að gera leikskólann gjaldfrjálsan.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um hlut sveitarfélaganna í þessum efnum af því að hæstv. ráðherra fer nú með þau mál. Auðvitað er ekki hægt að ætla sveitarfélögunum að taka á sig útgjöld nema þau fái tekjur á móti. Þau eru ekki aflögufær, allra síst sveitarfélög landsbyggðarinnar. Hyggst hæstv. ráðherra þá beita sér fyrir því að afkoma sveitarfélaganna verði bætt þannig að þau geti verið fullgildir þátttakendur í þessari áætlun? Ég vil gjarnan spyrja í leiðinni hæstv. ráðherra: Er það rétt að stjórnarflokkarnir hafi samið um að málefni sveitarfélaganna fari undan félagsmálaráðuneytinu? Ég tel það hið mesta óráð og ekki mun það bæta stöðu hæstv. ráðherra til að láta góða hluti gerast í þessum efnum, sem ég efa ekki að hugur hæstv. ráðherra stendur til. Það væri því fróðlegt inn í þetta samhengi að við fengjum upplýsingar um hvað er í vændum varðandi málefni sveitarfélaga.