134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:34]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fer náttúrlega allt eftir útfærslunni á einstaka þáttum og hvað við ætlum að gera mikið í barnabótum, hvað það kostar. Ef við ætlum t.d. að fara upp í það sem ég nefndi í máli mínu, sem ég tel ástæðu til að skoða, að barnabætur byrji ekki að skerðast hjá einstæðum foreldrum fyrr en við 125 þús. kr. sem er 93 þús. núna, sem ég veit ekkert hvort verður niðurstaðan, þá erum við þar að tala um 900 millj. kr. ef það yrði tvöfalt hækkað t.d. hjá hjónum. Það er hægt að leika sér með svona tölur en við höfum ekki komist að neinni niðurstöðu að því er varðar útfærsluna á barnabótunum af því að hv. þingmaður nefndi þær.

Það er vissulega hægt að leika sér og skoða hvað það kostar þegar 12 mánaða fæðingarorlofið er að fullu komið til framkvæmda. Við vitum að það kostar nokkra milljarða, 2,5–3 milljarða, eftir því hvernig útfærslan verður, hvernig auknu fæðingarorlofi verður skipt á milli foreldra, hver staða einstæðra mæðra verður í því o.s.frv. Það er bara ekki hægt að setja neinar tölur á þetta. Ég man ekki eftir að svona hörð krafa hafi verið uppi eins og ég heyri í þessum sal þegar verið er að leggja fram jafnréttisáætlanir til fjögurra ára sem kosta peninga líka, ég hef ekki heyrt að miklar kröfur hafi komið fram um að vera með nákvæma útfærslu á því hvað slíkt kostar. En ég get fullvissað hv. þingmann um að fullur vilji er fyrir því og vantar ekkert upp á það milli flokkanna að þetta er forgangsmál, forgangsverkefni á sviði ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum að hrinda þessari áætlun í framkvæmd. En það er bara ekki hægt að festa hönd á það nákvæmlega hvað þetta getur kostað fyrr en menn hafa komið sér saman um útfærsluna og niðurstöðuna og það verður gert eftir því sem málunum vindur fram.

Ákveðinn samráðsvettvangur er við sveitarfélögin til að fjalla um aðgerðir sem snúa að þeim og auðvitað verður þar metin afkoma og kostnaðarskipting að því er varðar þá þætti sem snúa að sveitarfélögum.