134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:39]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnaleg svör. Í raun endurspegluðu þau svör að hluta til þann málflutning sem við mörg höfum haft í frammi í dag. Það á eftir að forgangsraða þessari þingsályktunartillögu og menn eiga líka eftir að sjá hvað er til ráðstöfunar til að koma þessum góðu málum áfram. Það er akkúrat það sem við mörg í stjórnarandstöðunni höfum verið að segja í dag að það er ekkert í hendi í þessu. Menn vita ekki hver verðmiðinn er á þingsályktunartillögunni en ég ítreka að að sjálfsögðu stöndum við framsóknarmenn með og höfum mjög jákvæðan vilja í þessum efnum því hér er um mjög mörg góð mál að ræða.

En stóra málið er að við megum heldur ekki tapa yfirsýninni. Við megum ekki hleypa verðbólgunni á skrið. Við þurfum að hugsa um íslenskan ríkissjóð eins og sú ríkisstjórn gerði sem var við völd síðustu 12 ár. Það gengur ekki að ætla að steypa ríkissjóði í botnlausar skuldir á ný. Við megum ekki endurtaka þann leik og ég trúi ekki öðru en margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu sammála okkur framsóknarmönnum í því. Til að mynda árið 1998 greiddum við í vaxtagjöld sem samsvaraði öllum útgjöldum til menntamála það ár. Sjáið þið viðsnúninginn? Við verðum að fara varlega. Að sjálfsögðu styðjum við þessi fyrirheit en aðalatriðið er að það er í rauninni ekki búið að útfæra neitt sem hér stendur. Þetta eru fyrirheit. Menn eiga eftir að kanna hvert svigrúmið er og við munum skoða það í haust. Hér er um mjög mörg góð mál að ræða.

Ég vil að lokum inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða afstöðu hún hafi til þess að hækka styrkveitingar til framhaldsskólanema sem þurfa að sækja nám fjarri heimahögum. Þetta er málefni sem brennur á þúsundum heimila og mjög brýnt að við fáum svör við í þessari umræðu þegar við ræðum um málefni barna.