134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:50]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er atgervisflótti víðar en úr Seðlabankanum, það er atgervisflótti og mannekla á öllum umönnunar-, hjúkrunar- og sjúkrastofnunum í landinu, meira að segja svo að það er ekki hægt að hleypa fólki í lögboðið sex vikna sumarfrí á þessu sumri víðast hvar, heldur aðeins í fjórar vikur. Það dugir þó ekki til og eru tugir rúma á göngum í stærstu sjúkrastofnunum landsins vegna þessa.

Mér er ljóst hver afstaða ráðherrans er til þess sem hún kallar Seðlabankann í þessum málum. Ég spurði um afstöðuna til þeirrar ákvörðunar fulltrúa Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans að fallast á þetta vegna þess að það er það signal sem verið er að gefa út. Bankinn getur ekki sisvona án atbeina bankaráðs og stjórnar og fulltrúa stjórnmálaflokkanna þarna inni komið þessu við. Eins og fram hefur komið (Forseti hringir.) var fulltrúi Vinstri grænna í bankaráði Seðlabankans (Forseti hringir.) sá eini sem ekki var þessu meðmæltur.