134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[15:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli í þessu máli þegar skoðaður er sá tími sem hefur liðið frá því að Alcan óskaði eftir því að breytingar yrðu á í þessu skattalega tilliti, þ.e. frá 28. maí 2003 til marsmánaðar 2007 líða tæp fjögur ár. Hæstv. ráðherra hefur skýrt í nokkru um hvað þau álitamál hafa snúist sem þarna hafa verið rædd á þessum langa tíma en mig langar til að vita og ég ímynda mér að talsvert af þessum álitamálum hafi tengst tímabilinu frá deginum í dag og aftur til gildistökunnar, þ.e. til 1. janúar 2005.

Nú gerir maður ráð fyrir að Alcan telji sig hafa ofgreitt til íslenska ríkisins, þess vegna óski það eftir því að fara inn í hið almenna skattaumhverfi, og því spyr ég: Hvað hefur verið reiknað út varðandi þær fjárhæðir sem um ræðir sem íslenska ríkið kæmi þá að öllum líkindum til með að þurfa að greiða til baka fyrir þetta tímabil 1. janúar 2005 og til dagsins í dag? Liggur það fyrir? Hvernig er þá gert ráð fyrir að slíkar endurgreiðslur verði? Er þá miðað við að slíkt verði eins og fyrirtækið hefði fallið að skattalögum og almennum reglum á því tímabili sem um ræðir?