134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:28]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um að staðfesta samning á milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu í Straumsvík. Í samningnum er samið um þá meginbreytingu að Alcan lúti frá og með 1. janúar 2005 íslenskum skattalögum í einu og öllu eins og aðrir lögaðilar er bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi.

20. mars 1997, fyrir sléttum tíu árum, sagði ég í ræðu þegar rædd voru lög um álbræðslu á Grundartanga:

„Þegar maður lítur yfir þetta frumvarp, þá er það aðallega fólgið í undanþágum frá íslenskum lögum hvað varðar ýmis ákvæði sem íþyngja íslenskum hlutafélögum.“

Þá nefndi ég fyrst að tekin var ábyrgð á efndum Skilmanna- og Hvalfjarðarhrepps, í öðru lagi var undanþága frá skattamálum, tekjuskatturinn væri negldur niður í 33% en gæti lækkað en ekki hækkað og svo voru sérstakar reglur um arðinn. Fyrirtækið væri eignarskattsfrjálst á meðan allir íslenskir einkaaðilar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, borguðu eignarskatt.

Síðan segi ég í ræðunni:

„Fyrirtækið er undanþegið iðnlánasjóðsgjaldi, iðnaðarmálagjaldi, markaðsgjaldi, það er sérákvæði um fasteignaskatt og sérstakur fasteignaskattur er líka felldur niður og settur inn á eitt form. Stimpilgjaldið er 0,15% og jafnvel 0% í staðinn fyrir að innlend fyrirtæki þurfa að borga allt upp í 1,5%, tífalt meira, í stimpilgjald. Það eru sérstök ákvæði um byggingarleyfisgjald, gatnagerðargjald, skipulagsgjald og svo eru felldir niður tollar og vörugjöld. Hversu mörg innlend fyrirtæki, sem standa í endalausu basli og slagsmálum við skattheimtumenn og opinberan eftirlitsiðnað, mundu ekki vilja sjá slíkar reglur? Fjöldamörg. Og svo eru menn hissa á því að innlend fyrirtæki geti ekki greitt hærri laun og skilað meiri hagnaði.“

Svo segi ég í lok ræðunnar, með leyfi frú forseta:

„Við þurfum að huga að því ekki bara að fá stóriðju til landsins heldur að huga líka að þeim fyrirtækjum sem eru í landinu. Við þurfum að fara í gegnum þær undanþágur sem við erum að veita þessu erlenda fyrirtæki og spyrja okkur hvort við getum ekki haft fyrir íslensk fyrirtæki nákvæmlega sömu reglur á sviði skattamála, eftirlitsmála o.s.frv. þannig að við léttum þessum hlekkjum af innlendu atvinnulífi. Það finnst mér vera næsta skref, að fara í gegnum þessi skattalög og eftirlitslög og athuga hvort ekki megi létta einhverju af innlendum fyrirtækjum til samræmis við það sem menn telja sig nauðbeygða til að veita erlendum fyrirtækjum hér á landi til að fá þau til landsins.“

Þetta hefur allt gengið eftir, frú forseti. Við erum búin að gera íslenskt skattaumhverfi og eftirlitsumhverfi svo gott fyrir innlend fyrirtæki að hinn erlendi aðili vill núna taka upp innlenda skattkerfið. Ég get ekki annað en glaðst, frú forseti, glaðst verulega. Þetta frumvarp er vottorð um það að íslenskt atvinnulíf býr við samkeppnisfærar skattareglur og eftirlitsreglur eins og best gerast í heiminum.